*

fimmtudagur, 6. maí 2021
Innlent 20. júlí 2019 11:05

Össur hækkað um 90 milljarða

Hlutabréfaverð Össurar hefur hækkað töluvert það sem af er ári. Hækkunin hefur verið drifin áfram af góðri afkomu á fyrsta ársfjórðungi, sterkum söluvexti auk lækkandi vaxtastigs að mati greinenda.

Ástgeir Ólafsson
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar.
Eva Björk Ægisdóttir

Markaðsvirði stoðtækjaframleiðandans Össurar hefur hækkað um rúmleg 4,7 milljarða danskra króna það sem af er þessu ári eða því sem nemur tæplega 90 milljörðum íslenskra króna. Markaðsvirði félagsins í kauphöllinni í Kaupmannahöfn nemur nú um 18 milljörðum danskra króna eða um 340 milljörðum íslenskra króna. Við lokun markaða á miðvikudag stóð gengi bréfa félagins í 42,2 dönskum krónum á hlut og hefur hækkað um 35% það sem af er ári. Þá hefur  hlutabréfaverðið  hækkað um rúmlega 50% á síðustu 12 mánuðum.

Sterk byrjun á árinu 

Samkvæmt dönskum greiningaraðilum sem Viðskiptablaðið ræddi við hefur hækkun ársins verið drifin áfram af tveimur þáttum. Í fyrsta lagi skilaði félagið sterku uppgjöri á fyrsta ársfjórðungi en hagnaður félagsins nam 14,1 milljón dollara á tímabilinu og jókst um 37% frá sama tíma í fyrra. Þá námu tekjur félagsins 160 milljónum dollara og jukust um 13% og nam innri vöxtur á tímabilinu 8%. Hefur þetta orðið til þess að auka væntingar um að fyrirtækið hækki afkomuspá sína fyrir árið í ár en í áætlunum félagsins er gert ráð fyrir að innri vöxtur verði á bilinu 4-5% í ár.

Innri vöxtur á fjórðungnum var drifinn áfram út af sterkum vexti í stoðtækjavörum sem nam um 10% en stoðtæki stóðu fyrir 54% af tekjum á fjórðungnum. Þá var einnig góður gangur í sölu á spelkum og stuðningsvörum þar sem innri vöxtur nam 5%. Greinendur búast einnig við góðum vexti á öðrum ársfjórðungi þá sérstaklega vegna nýrrar útgáfu af Proprio gervigreindarfætinum sem kom á markað á fyrsta ársfjórðungi. Félagið mun birta uppgjör fyrir annan ársfjórðung þann 25. júlí næstkomandi. Í öðru lagi hefur lækkandi vaxtastig það sem af er ári ýtt undir hærra verð á öflugum fyrirtækjum í stöðugum vexti eins og Össur

Verðið í samræmi við markaðinn

Ef litið er á kennitölur samanburðafyrirtækja Össurar kemur í ljós að hlutabréfaverð félagsins er í takt við aðra framleiðendur á heilbrigðistækjum á Norðurlöndum sem hafa að meðaltali hækkað um tæplega 30% það sem af er ári.

Framreiknað V/H hlutfall félagsins fyrir árið í ár er 31,3 en meðaltal samanburðarfyrirtækja er 34,5. Ef horft er á sama hlutfall fyrir næsta ár er V/H hlutfall Össurar 27,2 en meðaltalið 29,4. Framreiknað EV/EBITDA hlutfall félagsins fyrir árið í ár 18,1 og meðaltalið 23,1. EV/ EBITDA er heildarvirði fyrirtækis, þ.e. samanlagt markaðsvirði hlutafjár og vaxtaberandi skulda deilt með hagnaði fyrir afskriftir, fjármagnsgjöld og skatta. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Össur