Forsætisráðuneytið hefur sent frá sér fréttatilkynningu vegna rangra upplýsinga í frétt á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Þar kom fram að tuttugu manns störfuðu sem aðstoðarmenn fyrir ráðherra, og af þeim störfuðu sjö fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.

Í tilkynningu forsætisráðuneytisins segir að tveir aðstoðarmenn séu starfandi í forsætisráðuneytinu sem aðstoðarmenn forsætisráðherra. Þeir séu Jóhannes Þór Skúlason og Ásmundur Einar Daðason, en hann þiggur ekki laun fyrir störf sín í ráðuneytinu.

Kemur fram að ríkisstjórn Íslands hafi heimild til að ráða þrjá aðstoðarmenn. Sú heimild hafi ekki verið að fullu nýtt en tveir aðstoðarmenn starfi á grundvelli hennar og þeir hafi aðsetur í forsætisráðuneytinu. Þeir eru Benedikt Árnason, efnahagsráðgjafi forsætisráðherra og ráðherranefnda ríkisstjórnarinnar, og Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar.

Þessu til viðbótar starfi Margrét Gísladóttir sem sérstakur ráðgjafi ráðherra í forsætisráðuneytinu í láni frá utanríkisráðuneytinu. Aðrir starfsmenn sem tilgreindir eru í Fréttablaðinu í dag séu ekki aðstoðarmenn forsætisráðherra, heldur heyri þeir undir ráðuneytisstjóra og starfi að tímabundnum og afmörkuðum verkefnum.

Lesa má tilkynningu ráðuneytisins í heild sinni hér .