Eftir uppkaup ríkissjóðs á eigin bréfum útgefnum í bandaríkjadölum munu heildarskuldir ríkissjóðs minnka um 54 milljarða króna. Skuldirnar verða þá 63,8% af vergri landsframleiðslu og hafa lækkað um 2,5%. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Eftir uppgreiðslu bréfanna verða skuldir ríkissjóðs 1.403 milljarðar króna. Til samanburðar hafa skuldirnar minnkað um 309 milljarða króna frá maí 2012 þegar þær voru mestar. Voru skuldirnar þá 1.588 milljarðar króna, en það jafngildir 1.712 milljörðum króna á verðlagi dagsins í dag.

Þá gætu skuldir ríkissjóðs lækkað umtalsvert gangi áætlun ríkisstjórnarinnar um afnám hafta eftir. Gæti áætlunin þannig skilað allt að 680 milljörðum króna í ríkissjóð sem notaðir yrðu í niðurgreiðslu skulda.

Skuldbindingar ekki meðtaldar

Inni í skuldatölunni eru ekki skuldbindingar sem allar líkur eru á að falli á ríkissjóð. Stærsta skuldbindingin er vegna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga en staðan á því er um 300 milljarðar króna. Að auki er líklegt að veruleg fjárhæð falli á ríkissjóð vegna Íbúðalánasjóðs og hafa 100 milljarðar verið nefndir.