"Við mat á forsendum kjarasamninga nú skortir það helst að ríkisstjórnin hafi staðið við fyrirheit sín um að örva fjárfestingu og skapa hvata til nýsköpunar. Stjórnvöldum hefur einnig mistekist að skapa atvinnulífinu hagstæð starfsskilyrði með almennri efnahagsstefnu sem stuðlar að hagvexti," segir Vilmundur Jósefssom, formaður Samtaka atvinnulífsins í grein sem birtist í Fréttablaðinu sem og á vef SA.

"Þvert á móti," segir Vilmundur í greininni, "hefur ríkisstjórnin sérstaklega ákveðið að falla frá framkvæmdum sem gátu orðið að veruleika bæði hratt og örugglega. Einnig hefur verið stefnt að því að skattleggja sérstaklega atvinnugreinar sem ekki eru ríkisstjórninni þóknanlegar. Þar er átt við sjávarútveg, fjármálageirann og orkufrekan iðnað. Skattlagning fjármálafyrirtækjanna er óhófleg og verður ekki til annars en að hækka vexti og þjónustugjöld og hvetja þau til þess að útvista starfsemi sinni. Þessa skatta alla munu viðskiptavinir fyrirtækjanna bera, almenningur og fyrirtæki."