Stórir og litríkir fylgihlutir hafa verið vinsælir um langt skeið og ekkert útlit fyrir að það muni breytast. Hjá Kastaníu er hægt að velja jólakjólinn en verslunin sérhæfir sig þó aðallega í fylgihlutum. Vintage By Fé er sænsk fatalína sem bættist við í versluninni í haust.

„Fötin frá þeim eru algjört konfekt, frábær gæði og gott verð. Haustlínan þeirra einkenndist af hlýjum og fallegum húfum, peysum og grifflum í bland við dásamlega silkikjóla, silkiblússur og fleira,“ segja Bryndís Björg Einarsdóttir og Ólína Jóhanna Gísladóttir, eigendur Kastaníu.

„Konur eru duglegar að koma til okkar og kaupa sér föt og fylgihluti eins og klúta frá Plomo o Plata, falleg veski, hálsmen, loðkraga frá Feldur verkstæði, armbönd og fleira. Það er meira um það að sami kjóllinn sé notaður oftar en nýtt skart, naglalakk, veski og sokkabuxur keypt við hann. Hálsmenin og klútarnir spila þar stórt hlutverk. Kjóllinn gjörbreytist við nýtt hálsmen eða nýjan silkiklút. Feldir verða áfram vinsælir í ár eins og síðastliðin ár og við verðum áfram með fallega kraga, loðhúfur og æðisleg loðvesti.“

Bryndís og Ólína segjast strax finna fyrir því að fólk sé farið að versla fyrir jólin. „Það má í raun segja að jólatraffíkin sé byrjuð þar sem við finnum fyrir því að eiginmennirnir eru farnir að þreifa fyrir sér og konurnar farnar að útbúa óskalistann.“

Enginn vill lenda í jólakettinum og því er desembermánuður ansi líflegur í fataverslunum. Nánar er fjallað um fatavalið um jólin í Jólagjafahandbókinni sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .