Þau Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, hafa náð samkomulagi um að bankar og aðrir kröfuhafar Grikklands verði ekki þvingaðir til þess að afskrifa skuldir landsins. Þjóðverjar hafa til þess gert kröfu um að kröfuhafar yrðu neyddir til þess að taka á sig hluta kostnaðarins við að leysa vanda Grikkja en niðurstaða fundar þeirra Merkel og Sarkozy varð að kröfuhafarnir yrðu að vera sjálfviljugir til þess að taka þátt í lausn vandans.

Aðgerðirnar verða svipaðar Vínaráætluninni sem samin var við lausn skuldavanda A-Evrópuríkja árið 2009 og verða þær í náinni samvinnu við Seðlabanka Evrópu.

Gengi evrunnar og grískra ríkisskuldabréfa tóku kipp uppávið þegar fréttist af samkomulagi þessara tveggja stórvelda Myntbandalags Evrópu.