Stjórnir Burðaráss hf. og Kaldbaks hf. hafa undirritað sameiginlega áætlun um samruna félaganna. Fyrirhugað er að samruninn miðist við 1. október 2004 og tekur Burðarás hf. við öllum rekstri, eignum og skuldum, réttindum og skyldum Kaldbaks hf. frá þeim tíma.

Hluthafar Kaldbaks hf. fá 0,637841438 hluti í Burðarási hf. fyrir hvern 1 hlut í Kaldbaki hf.

Samrunaáætlun er birt í Lögbirtingablaðinu í dag, þann 15. október 2004. Samrunagögn liggja einnig frammi hjá báðum félögum, auk þess sem þau eru meðfylgjandi þessari tilkynningu í fréttakerfi Kauphallarinnar.

Eftirfarandi er auglýsing um hluthafafund:

Hluthafafundur Burðaráss hf. verður haldinn á Grand Hótel, mánudaginn 18. október 2004 og hefst hann kl. 16.00.

Á dagskrá fundarins verða eftirtalin mál:

1. Tillaga um heimild stjórnar félagsins til að auka hlutafé þess um allt að 1.119.047.931 krónur að nafnverði. Hluthafar falla frá forgangsrétti sínum skv. 34. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Þessir nýju hlutir skulu vera í sama flokki og með sömu réttindi og aðrir hlutir í félaginu. Þeir skulu veita réttindi í félaginu frá skrásetningardegi hlutafjárhækkunarinnar. Stjórn félagsins er falið að ákveða nánari útfærslu á hækkun þessari með tilliti til verðs og greiðsluskilmála. Heimild þessi gildir til 1. september 2009.
2. Tillaga um breytingu á 2. gr. samþykkta félagsins: Heimili félagsins og varnarþing verði í Reykjavík, Sigtúni 42.
3. Önnur mál, löglega upp borin.

Tillögur frá hluthöfum, sem bera á upp á hluthafafundi, skulu vera komnar skriflega í hendur stjórnarinnar eigi síðar en sjö dögum fyrir hluthafafund.

Dagskrá, endanlegar tillögur, ársreikningur fyrir rekstrarárið 2003 sem og árshlutauppgjör fyrir fyrstu 6 mánuði rekstrarársins 2004 munu liggja frammi á skrifstofu Burðaráss, Sigtúni 42, viku fyrir hluthafafund. Ennfremur verður hægt að nálgast fundargögn á vefsíðu félagsins, frá sama tíma.

Fundargögn verða afhent hluthöfum eða umboðsmönnum þeirra á fundarstað frá kl. 15.00 á fundardegi. Umboðsmenn eru beðnir um að framvísa gildu umboði við hluthafaskrá á fundarstað.