Á þriðja tug mála hefur verið vísað til sáttamiðlunar frá því að tilraunaverkefni um sáttamiðlun í sakamálum hófst, flestum hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Þar af eru minniháttar líkamsárásarmál í meirihluta, en einnig er um að ræða mál vegna eignaspjalla, þjófnaða o.fl.

Langflestir gerendur í þessum málum voru á aldrinum 15-18 ára. Sátt náðist í öllum málunum.

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra ákvað í maí 2006 að hrinda tilraunaverkefninu af stað til tveggja ára og þá um haustið hófst sáttamiðlun hjá lögreglustjóranum í Reykjavík, nú lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Í október og nóvember síðastliðnum hófst svo innleiðing sáttamiðlunar á landsbyggðinni.

Færri mál en reiknað var með

Nokkuð færri mál hafa farið í farveg sáttamiðlunar en reiknað var með í upphafi, segir í nýútgefinni stöðuskýrslu eftirlitsnefndar með verkefninu, en ein skýringa þess er talin að tíma taki fyrir lögregluembætti að breyta venjubundnum starfsháttum og tileinka sér nýtt verklag.

Nefndin telur þó að bæta þurfi nokkur atriði, m.a. skerpa betur á skráningu mála að því er varðar lokastöðu þeirra og útsendingu tilkynninga um niðurfellingu saksóknar til málsaðila að lokinni sáttamiðlun. Þá þurfi lögreglustjóraembættin að setja sér metnaðarfull markmið um fjölda mála í sáttamiðlun fyrir árið 2008.

Einnig er lagt til að ákvæðum um tímafrest verði endurskoðaðir þar í ljós hefur komið að ekki hefur reynst unnt að fylgja þeim stranglega. Þá er jafnframt lagt til að skilyrði um mál teljist upplýst verði skýrð nánar í tilmælum ríkissaksóknara.

Til að mál geti farið í sáttamiðlun verður brot að vera smáfellt og/eða varða við ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um þjófnað, gripdeild, húsbrot, hótun, eignaspjöll, minniháttar líkamsárás, nytjastuld eða minniháttar brot gegn valdstjórninni. Ákærandi metur hvort mál séu tæk til slíkrar úrlausnar. Finni gerandi og þolandi lausn á málinu gera þeir með sér sáttasamning. Þegar samningurinn er efndur er málið fellt niður en fer að öðrum kosti sína hefðbundnu leið í réttarkerfinu.