„Rangfærslurnar eru það alvarlegar að ég á engan annan kost,“ segir Hallur Magnússon, fyrrverandi sviðsstjóri þróunardeildar Íbúðalánasjóðs, í yfirlýsingu sem hann hefur sent frá sér í tengslum við útgáfu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um starfsemi Íbúðalánasjóðs. Hann segir rangfærslur í skýrslunni slíkar að hann sjái þess ekki annars kost en að fara í meiðyrðamál gegn Rannsóknarnefndinni.

Hallur hefur fjallað ítarlega um Íbúðalánsjóð í gegnum tíðina í netskrifum sínum.

Hann segir í yfirlýsingu það vekja athygli að við skýrslugerðina, sem hafi kostað skattborgara hundruð milljóna króna, að ekki hafi verið rætt við einn einasta fulltrúa þeirra sem fjallað er um. „Það eitt rýrir verulega gildi skýrslunnar sem því miður er yfirfull af rangfærslum,“ skrifar hann.

Hann svarar gagnrýni á ráðningu sína á þann veg að hann hafi verið ráðinn til Íbúðalánasjóðs sumarið 1999 og starfið auglýst í fjölmiðlum. Gallup hafi séð um ráðningaferlið og hann metinn hæfasti umsækjandinn úr stóum hópi umsækjenda. Tveir aðrir hafi verið metnir hæfir.

„Í ljósi þessara alvarlegu ásakana nefndarinnar og þá sérstaks eins fulltrúa hennar sem mér skilst að hafi lagt sig eftir því að koma framangreindum ranfærslum á framfæri á blaðamannafundi þá hef ég hafið undirbúning að meiðyrðamáli gagnvart nefndinni í heild og viðkomandi nefndarmanni sérstaklega,“ skrifar hann.

Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis