Sjálfstæðisflokknum ber að standa fast á hugsjónum sínum um frelsi einstaklings og ef Framsóknarflokkurinn heldur áfram á leið haftabúskapar boða og bann á Sjálfstæðisflokkurinn að slíta stjórnarsamstarfinu. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á málefnaþingi Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) um helgina.

„Málamiðlanir eru vitaskuld eðlilegur hluti af stjórnmálum," segir í ályktuninni. „Sjálfstæðisflokkurinn má hins vegar ekki við því að miðla málum með þeim hætti að flestar fórnirnar í ríkissstjórnarsamstarfinu lendi á honum og þeim hugsjónum sem hann stendur fyrir. Þingmenn flokksins verða að þora að taka slaginn og standa vörð um grunngildi sjálfstæðisstefnunnar, sama þótt það kosti átök við samstarfsflokkinn.

Þegar þingmenn og ráðherrar flokksins hafa talað fyrir frjálslyndum og víðsýnum hugmyndum á borð við afnám einokunarsölu ríkisins á áfengi, hugsanlegri komu verslunarkeðjunnar Costco hingað til lands, auknu frjálslyndi í fíkniefnamálum, ábyrgri stjórn í ríkisfjármálum og frekari skattalækkunum, svo eitthvað sé nefnt, hefur þeim ávallt verið mótmælt kröftuglega af framsóknarmönnum. Vilji þingmanna Framsóknarflokksins virðist ekki standa til þess að auka frelsi einstaklingsins, heldur virðast þeir vera sannfærðir um að leið haftabúskapar, boða og banna sé hin eina rétta. Ef sú verður áfram raunin, ber Sjálfstæðisflokknum að standa fast á hugsjónum um frelsi einstaklingsins til orðs og athafna og slíta ríkisstjórnarsamstarfinu við Framsóknarflokkinn."

Ríkisvæðing einkaskulda

Ungir sjálfstæðismenn harma enn fremur „þá ákvörðun þingflokks Sjálfstæðisflokksins að beygja sig undir vilja Framsóknarflokksins og samþykkja stærstu ríkisvæðingu einkaskulda í sögu Íslands. Flokkur, sem kennir sig á tyllidögum við ábyrgð í ríkisfjármálum, á ekki að nýta áttatíu milljarða króna af almannafé til þess að greiða niður verðtryggð húsnæðislán tiltekins þjóðfélagshóps. Slíka fjármuni á þess í stað að nýta til þess að grynnka á níðþungum skuldum ríkisins og lækka skatta á fólk og fyrirtæki. Það kæmi öllum til góða, ekki bara sumum.

Forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar er að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Það er ánægjulegt að ríkisstjórnin hafi stöðvað skuldasöfnunina og að gert sé ráð fyrir hallalausum fjárlögum annað árið í röð. En það er einfaldlega ekki nóg. Þörf er á myndarlegum afgangi á rekstri ríkissjóðs til að draga úr skuldabyrðinni. Það er sömuleiðis ekki nóg að ríkið selji eignir til að grynnka á skuldum sínum, heldur þurfa stjórnmálamenn að sýna kjark, draga verulega úr ríkisútgjöldum og minnka umsvif ríkisins á öllum sviðum."

Höftin burt

Á ályktun SUS segir að þó staða ríkissjóðs sé enn slæm verði núverandi ríkisstjórn að vinda ofan af þeim skattahækkunum sem vinstristjórnin stóð fyrir í valdatíð sinni.

„Ríkisstjórnin hefur nú þegar gripið til einhverra skattalækkana, og er þróunin öll í rétta átt, en mikið verk er enn óunnið. Sú aðgerð, að lækka skatta, myndi nýtast heimilum landsins hvað best. Ungir sjálfstæðismenn fagna því að loks standi til að grisja frumskóg vörugjalda hér á landi. Tillögur ríkisstjórnarinnar um að endurskoða neysluskatta og fella niður almenn vörugjöld eru kærkomnar."

Ungir sjálfstæðismenn telja að eitt mikilvægasta verkefnið í efnahagslífi þjóðarinnar sé að losa um gjaldeyrishöftin.

„Forsendan fyrir því að mögulegt sé að aflétta höftum er að vandamál tengd svokallaðri snjóhengju verði leyst án þess að efnahagslegum stöðugleika landsins verði ógnað. Frelsa verður mennta- og heilbrigðisstofnanir úr viðjum ríkisrekstrar. Það myndi stuðla að bættri þjónustu og jafnframt meiri hagkvæmni í rekstri þeirra."

Í ályktuninni kemur fram einnig fram að ungir sjálfstæðismenn vilji afnema „einokunarsölu ríkisins á áfengjum drykkjum og afturhvarf frá refsistefnu í fíkniefnamálum.

Vitundarvakning hefur orðið í fíkniefnamálum og virðast fleiri og fleiri átta sig á því að núverandi refsistefna er röng, skaðleg og gagnast síst þeim sem þurfa á aðstoð að halda. Heilbrigðisráðherra hefur lýst því yfir að rétt sé að stefna að afglæpavæðingu fíkniefna, enda sé refsistefnan ekki að virka. Ungir sjálfstæðismenn taka heilshugar undir það. Fíkniefnavandinn er fyrst og fremst vandamál heilbrigðis- og félagsmálayfirvalda, ekki lögreglu."