Seðlabanki Íslands segir í tilkynningu að fréttamannafundur á mánudag, þar sem tilkynnt var um yfirtöku á 75% hlut í Glitni, hafi ekki verið boðaður fyrr en að fengnu samþykki stærstu hluthafa.

Vísar bankinn þar með á bug ummælum Þorsteins Más Baldvinssonar, stjórnarformanns Glitnis, þess efnis að samþykki allra stærstu hluthafa Glitnis hafi ekki legið fyrir þegar Seðlabankinn hafi boðað fundinn.

Tilkynning bankans er svohljóðandi.

„Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöld, þriðjudaginn 30. september, var látið að því liggja að Seðlabanki Íslands hefði boðað fréttamannafund á mánudagsmorgun um málefni Glitnis Banka hf. áður en fyrir lá samþykki hluthafa í bankanum um aðkomu ríkissjóðs að bankanum. Þetta er ekki rétt. Fréttamannafundur var ekki boðaður fyrr en að fengnu samþykki stærstu hluthafa."