*

föstudagur, 16. apríl 2021
Innlent 23. maí 2020 19:01

Seljast upp í skipinu

Áhugi landsmanna á reiðhjólum, rafhjólum og -hlaupahjólum hefur rokið upp úr öllu valdi í kjölfar COVID-19.

Sveinn Ólafur Melsted
Pétur Þór Halldórsson, forstjóri S4S, móðurfélags Ellingsen, segir að Rafhjólasetur verslunarinnar hafi opnað á hárréttum tíma. Hann reiknar með að flestöll rafknúin farartæki verði uppseld um mánaðamótin júní-júlí.
Gígja Einars

Sannkallað hjólaæði hefur gripið landann, líkt og gífurlega langar raðir sem myndast hafa fyrir utan reiðhjólaverslanir bera með sér. COVID-19 faraldurinn hefur orðið til þess að utanlandsferðaplön landsmanna fyrir sumarið hafa farið fyrir bí og í kjölfarið hefur eftirspurn eftir hjólum og fleiri útivistarvörum rokið upp.

„Það er óhætt að segja að dagarnir séu fljótir að líða, enda í nægu að snúast," segir Jón Óli Ólafsson, eigandi Hjólaverzlunarinnar Berlin. „Eftirspurn eftir reiðhjólum hefur ekki aðeins rokið upp hér á landi heldur einnig víða í Evrópu og Bandaríkjunum. Það má því segja að þetta sé alþjóðleg þróun."

Jón Óli segir að hann myndi gróflega áætla að sala verslunarinnar undanfarið hafi tvöfaldast frá sama tímabili í fyrra og í mörgum tilfellum hafi sendingar af hjólum selst upp nokkru áður en þær skila sér hingað til lands.

„Við höfum selt mest af þessum hefðbundnu borgarhjólum sem er notað sem samgöngutæki til að komast frá A til B, enda einblínum við mest á þennan hóp sem vill geta hjólað í þeim fötum sem það klæðist hversdagslega. En það er einnig hægt að fá fjallahjól, „racer -a", rafmagnshjól og fleiri gerðir hjóla hjá okkur. Þá er einnig mikil eftirspurn eftir hinum ýmsu aukahlutum líkt og hjálmum, brettum, lásum og stöndurum."

Hjólaverzlunin Berlin tekur einnig að sér viðgerðir á reiðhjólum og segir Jón Óli að eftirspurn eftir viðgerðum hafi einnig aukist verulega undanfarin misseri. „Eftirspurnin eftir þessari þjónustu hefur að sama skapi u.þ.b. tvöfaldast. Við tökum að okkur viðgerðir á hvaða týpu sem er af hjólum en að mestu leyti erum við að gera við hefðbundin borgarhjól."

Sölumarkmiðum sumarsins náð í apríl

Rafknúin farartæki, líkt og rafhjól og rafhlaupahjól, hafa einnig notið mikilla vinsælda að undanförnu. Í febrúar sl. opnaði Ellingsen nýtt Rafhjólasetur og segir Pétur Þór Halldórsson, forstjóri S4S, móðurfélags Ellingsen, að þeim sölumarkmiðum sem sett hafi verið fram yfir sumarið hafi þegar verið náð í lok apríl.

„Það er óhætt að segja að salan hafi farið langt fram úr okkar væntingum og að setrið hafi opnað á hárréttum tíma. Ég hafði mikla trú á því að rafhjólin myndu eiga sterka innkomu inn á íslenska markaðinn, þar sem rafhjól geta svolítið jafnað leikinn. Þá geta t.d. tveir vinir farið saman í hjólaferð, þó að annar þeirra sé kannski svolítið vanari hjólreiðamaður. Hann er þá á sínu fjallahjóli á meðan hinn, sem er öllu óvanari, getur þó haldið í við þann vanari vegna þess að hann getur nýtt sér rafmagnið til að ná auknum krafti. Þar af leiðandi eru hjólreiðar orðnar aðgengilegri kostur fyrir alla."

Að sögn Péturs fór fljótlega á að bera á mjög aukinni eftirspurn eftir rafdrifnum farartækjum þegar COVID-19 skall á. Í fyrstu hafi salan að mestu farið fram í gegnum netverslun en um leið og létta fór á samkomutakmörkunum hafi straumurinn í verslun Ellingsen aukist verulega. „Rafhjólin og -hlaupahjólin hafa ítrekað selst upp og oft er búið að selja upp þær sendingar sem við eigum von á nokkru áður en þær koma til landsins."

Það hafi hreinlega myndast langur biðlisti eftir þessum farartækjum.

„Við eigum svo von á nokkrum sendingum á næstu vikum en eftir það eigum við ekki von á að fá mikið fleiri sendingar. Það er sama sprenging í eftirspurn eftir þessum vörum víða um Evrópu og því ekki hlaupið að því að fá vörur frá framleiðanda. Það stefnir því allt í að um mánaðamótin júní-júlí verði nánast allt vöruúrvalið uppselt og má þá ekki eiga von á nýjum sendingum fyrr en í haust. Það hefur einnig verið brjálað að gera á verkstæðunum okkar. Annað þeirra er viðgerðaverkstæði en hitt er samsetningarverkstæði sem setur saman ný hjól," segir Pétur.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.