*

sunnudagur, 5. desember 2021
Innlent 24. júní 2021 10:45

Semja við borgina um fækkun bensínstöðva

Hagar og Festi hafa samþykkt drög að samningum um fækkun bensínstöðva í Reykjavík.

Ritstjórn
Gígja Einars

Hagar og Festi, móðurfélög N1 og Olís, hafa bæði tilkynnt um fyrirhugaða fækkun bensínstöðva í Reykjavík í samræmi við stefnu borgarstjórnar. Stjórnir félaganna hafa staðfest drög að samningum sem lagðir verða fyrir á fundi borgarráðs í dag.

Samningarnir hjá Högum sem um ræðir eru eftirfarandi:

  • Rammasamkomulag vegna fyrirhugaðra breytinga á aðstöðu eldsneytisstöðva Olís og ÓB
  • Samkomulag vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Álfabakka 7
  • Samkomulag vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Álfheimum 49
  • Samkomulag vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Egilsgötu 5
  • Lóðarvilyrði um lóð á Esjumelum fyrir fjölorkustöð
  • Samkomulag vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Stekkjarbakka 4-6

Festi tók ekki fram sundurliðun samningsins líkt og Hagar gerðu í sinni tilkynningu. Efnisinnihald samninganna hjá félögunum tveimur er sagt trúnaðarmál þar til drögin hafa verið kynnt fyrir borgarráði.

Samningarnir byggja á yfirlýstum markmiðum Reykjavíkurborgar frá 7. maí 2019. Þar kom fram að fækkun bensínstöðva í Reykjavík væri í samræmi við markmið aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 og loftslagsstefnu borgarinnar frá 2016 til að stuðla að vistvænni ferðamátum og komandi orkuskiptum í bílasamgöngum.

„Unnin verði áætlun og skilgreindir hvatar sem miða að fækkun bensínstöðva. Markmiðið verði að dælum fyrir jarðefnaeldsneyti innan borgarmarkanna fækki um 50% til ársins 2030 og þær verði að mestu horfnar árið 2040,“ segir í loftlagsstefnu borgarinnar.

Sjá einnig: Misjöfn afstaða til fækkunar bensínstöðva

Í yfirlýsingunni fyrir rúmum tveimur árum kom fram að lóðarleigusamningum um bensínstöðvar sem voru í gildi yrðu almennt ekki endurnýjaðir við lok leigusamnings og þeir sem voru útrunnir yrðu ekki endurnýjaðir lengur en til tveggja ára frá samþykkt markmiðanna í borgarráði. Lóðarhöfum þessara lóða yrði heimilt að láta vinna hugmyndir að breyttu deiliskipulagi.

Sjá einnig: Fækkun bensínstöðva gæti raskað samkeppni

„Mögulegt verður fyrir lóðarhafa að „flytja“ dælur frá núverandi staðsetningu yfir á nýja staðsetningu fjölorkustöðvar, sem tekur minna rými, til dæmis á bílastæðum við matvöruverslanir. Skilyrði fyrir slíkum flutningi er að samningar náist um lokun eldri bensínstöðvar og að heildarfjöldi dæla fyrir jarðefnaeldsneyti fækki,“ segir í yfirlýsingunni.

Þær bensínstöðvar sem Reykjavíkurborg kvaðst helst opin fyrir að skoða endurnýjun á lóðaleigusamningum á eru bensínstöðvar sem liggja við stofnbrautir og mögulega tengibrautir.

Stikkorð: Hagar N1 Olís Bensínstöðvar Festi