Gríðarlegur vöxtur er í fjárfestingum í íslenskum tæknifyrirtækjum samkvæmt samantekt vefmiðilsins The Nordic Web. Fjárfestingar í tæknigeiranum á Íslandi voru meiri en í Noregi í fyrra og næstum því jafnmikilar og í Finnlandi samkvæmt samantektinni. Yfir 10% allra tæknifjárfestinga á Norðurlöndunum voru á Íslandi.

Samantekt vefmiðilsins nær til 339 fjárfestinga í norrænum tæknifyrirtækjum upp á samtals 1,82 milljarða dollara eða jafnvirði 235 milljarða króna. Þar af fengu íslensk fyrirtæki 193,8 milljón dollara, jafnvirði 25 milljarða króna, sem er 11% heildarupphæðarinnar á Norðurlöndum. Svíþjóð fékk 59% upphæðarinnar, Danmörk 15%, Finnland 11% og Noregur 5%.

Stærsta einstaka tæknifjárfestingin á Norðurlöndum í fyrra var 526 milljón dollara fjármögnun Spotify, en í öðru sæti er 98 milljón dollara fjármögnun íslenska fyrirtækisins Verne Global. Þrjár af tíu stærstu fjárfestingunum í tæknifyrirtækjum á Norðurlöndum á síðasta ári voru í íslenskum fyrirtækjum.

Sextánföldun milli ára

Fjárfestingum í íslenska tæknigeiranum fjölgaði um 150% milli áranna 2014 og 2015. Samanlögð upphæð fjárfestinganna sextánfaldaðist. Árið 2014 var fjárfest í íslenskum tæknifyrirtækjum fyrir 11,5 milljónir dollara, jafnvirði 1,5 milljarða króna, samkvæmt samantekt The Nordic Web.

30% fjárfestinga í íslenskum tæknifyrirtækjum í fyrra voru í leikjafyrirtækjum eða fyrirtækjum í sýndarveruleika. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá á dögunum er Ísland orðið stórt í heimi sýndarveruleika, en fjögur fyrirtæki í þeim geira starfa hér á landi.

Grein The Nordic Web.