Símaskráin 2008 er komin út, myndskreytt af Hugleiki Dagssyni. Hugleikur hefur ekki einungis teiknað forsíðumyndina heldur hefur hann einnig teiknað myndasögu sem nær yfir megnið af skránni. Sagan heitir Garðarshólmi og meðal persóna og leikenda eru fjöll, jólasveinn, kind, villikýr og lítill drengur sem er sendur í sveit.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Já.

Símaskráin hefur tekið nokkrum breytingum frá síðasta ári. Landsbyggðarhlutunum, sem eru sjö talsins, hefur verið breytt þannig að nú er nöfnum í hverjum landshluta raðað í stafrófsröð, rétt eins og gert er á höfuðborgarsvæðinu. Sem dæmi má nefna að í síðustu Símaskrá þurfti að leita undir Norðurbyggð til að finna númer á Húsavík og á sama hátt varð að leita undir Fjallabyggð til að finna íbúa á Siglufirði. Nú er nóg að fletta upp á kaflanum um Norðurland eystra og leita að viðkomandi nafni svo að ekki þarf að velkjast í vafa um heiti á nýsameinuðum sveitarfélögum. Landshlutakaflarnir hefjast sem fyrr á yfirliti yfir hvaða sveitarfélög þar er að finna.

Gulu síðurnar hafa verið færðar fremst í bókina. Efnisyfirlit Gulu síðnanna er nú á ensku og pólsku, auk íslensku. Þar er nú komið innskot með veitingastöðum sem flokkaðir eru á handhægan hátt, þannig að auðvelt er að fá yfirsýn yfir úrval staða með ítalskan mat, kínverskan, indverskan, heimilismat, skyndibita, svo að nokkuð sé nefnt. Ennfremur hafa bæst við upplýsingasíður um sundlaugar, golfvelli og viðburði um land allt. Sem fyrr eru í Símaskránni kort, leiðbeiningar um almannavarnir og ýmsar aðrar hagnýtar upplýsingar.

Símaskráin er umhverfisvæn og pappírinn sem í hana er notaður kemur úr sjálfbærum skógum. Já gerði á síðastliðnu ári samstarfssamning við Skógræktarfélag Íslands um að árlega verði gróðursettar 1.500 trjáplöntur á Ingunnarstöðum í Brynjudal. Með þessu vill Já á táknrænan hátt skapa mótvægi við þau 1.500 tré sem felld eru vegna prentunar Símaskrárinnar á ári hverju og stuðla að sjálfbærum rekstri og skynsamlegri nýtingu skóga.

Prentsmiðjan Stibo Graphic í Danmörku, sem prentar Símaskrána, vinnur eftir ströngum umhverfisstöðlum. Blek, lím og pappír, sem notað er í bókina, er að öllu leyti niðurbrjótanlegt og algjörlega skaðlaust náttúrunni. Símaskráin er nú prentuð í 200.000 eintaka upplagi og er 1.644 blaðsíður. Hvert eintak vegur um tvö kíló.

Hin hefðbundna Símaskrá er afhent án gjalds en harðspjaldaútgáfan kostar kr. 700.

„Óhætt er að segja að Símaskráin sé útbreiddasta og mest notaða bókin á Íslandi – en samkvæmt könnun Capacent Gallup frá því í september sl. nota 86,3% landsmanna Símaskrána,“ segir í tilkynningu frá Já.

Á höfuðborgarsvæðinu verður hægt að nálgast Símaskrána í verslunum Bónuss, Símans, Vodafone og á bensínstöðvum Skeljungs og Olís. Á bensínstöðvunum og hjá Símanum við Ármúla verða einnig móttökugámar fyrir eldri Símaskrár.

Á landsbyggðinni verður Símaskráin afhent á öllum afgreiðslustöðum Póstsins, þar sem einnig verður tekið við eldri skrám. Ennfremur verður hægt að nálgast skrána í verslunum Símans og Vodafone á landsbyggðinni.