Í dag var undirritaður samningur á milli Sjóvár, Akureyrarbæjar og Norðurorku um að Sjóvá annist alla vátryggingavernd fyrir þessa aðila næstu fjögur árin.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu.

Samkvæmt henni er í samningnum kveðið á um aukið samstarf samningsaðila við Sjóvá Forvarnahúsið um úttektir, áhættumat og framkvæmd sértækra forvarnaverkefna ásamt ráðgjöf, fræðslu og uppsetningu öryggisferla.

„Þess má geta að allt frá árinu 1999 hafa samningsaðilar átt farsælt og árangursríkt samstarf á sviði forvarnamála, sem hefur m.a. náð yfir árlega forvarnadaga, umferðarfræðslu, fræðslu um örugga notkun reiðhjóla, sem og úttekt á vinnustöðum,“ segir í tilkynningunni.

Ennfremur er í samningnum ákvæði um ágóðahlutdeild vátryggingataka ár hvert verði tjónareynsla undir skilgreindu hámarki af iðgjöldum. Þess má geta að sams konar ákvæði var í samningi þessara aðila undangengin ár. Ágóðahlutdeild Akureyrarbæjar fyrir árið 2007 nam 3,4 milljónum króna.

Þá kemur fram að ofangreindur samningur er gerður í kjölfar útboðs sem fram fór í júní sl. með þátttöku allra tryggingafélaganna.

Tilboð Sjóvár reyndist hagstæðast, samkvæmt tilkynningunni. Sjóvá hefur annast vátryggingavernd fyrir Norðurorku, Akureyrarbæ og tengdar stofnanir síðastliðin 9 ár.