Skarphéðinn Berg Steinarsson, fyrrverandi forstjóri Iceland Express, kannast ekki við að starfsmenn Isavia standi vörð um hag Icelandair. Þetta er þvert á það sem Skúli Mogsen, aðaleigandi og forstjóri Wow air, sagði í viðtali á RÚV í gær þegar hann sakaði Isavia um að verja hagsmuni Icelandair og vísaði til þess að flugfélagið hafi óskað brottfarartíma fyrir flug til Boston klukkan 16:40 en fengið honum úthlutað klukkan 17:50. Það er sami tími og Iceland Express hafði fyrir flug til Boston og New York árið 2011.

Skarphéðinn Berg kannast ekki við þetta en hann segir í samtali við netmiðilinn Túrista þessa flugtíma ekki hafa reynst Iceland Express erfiðir og bendir á að ákveðið samhengi verði að vera í flugáætluninni og Iceland Express flutti því morgunflug sín til Evrópu frá sjö að morgni til klukkan hálf níu þegar félagið hóf flug til N-Ameríku. Wow Air yrði að gera samskonar breytingar miðað við núverandi stöðu.

ESA kannast ekki við orð Skúla

Þá hélt Skúli því fram í viðtalinu á RÚV að ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hefði komist að þeirri niðurstöðu að yfirvöld hefðu leyfi til að úthluta flugtímum til nýrra flugfélaga til að tryggja samkeppni. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Túristi fékk hjá ESA þá hefur samkonar mál ekki komið á borð stofnunarinnar.