Ekkert lát er á vandræðum ríkissjóða evruríkjanna, en markaðir lækkuðu töluvert eftir mjög lélegt spænskt ríkisskuldabréfaútboð í dag. Spænska ríkið gaf í dag út ný tíu ára skuldabréf og ætlaði með útgáfunni að afla um fjögurra milljarða evra. Svo fór að ríkissjóður seldi aðeins bréf fyrir 3,56 milljarða evra og var ávöxtunarkrafan í hæstu hæðum. Meðalkrafa í útboðinu var 6,98%, en á eftirmarkaði var krafan á sambærileg bréf um 6,69% rétt fyrir útboðið. Í síðasta útboði á sambærilegum bréfum í síðasta mánuði var ávöxtunarkrafa á spænskum tíu ára bréfum um 5,43%.

Spánn er ekki einstakt dæmi hvað þetta varðar, en ávöxtunarkrafa á skuldabréf margra ríkja, allt frá Finnlandi til Austurríkis. Er þessi þróun rakin til efasemda fjárfesta varðandi getu stjórnvalda til að komast fyrir skuldavanda Evrópusambandsins.

Hlutabréf í evrópskum bönkum lækkuðu töluvert við opnun markaða í morgun og voru þeir frönsku í fararbroddi þar. Gengi bréfa BNP Paribas og Societe Generale lækkaði um meira en þrjú prósent, svo dæmi sé tekið.

Fáni Spánar
Fáni Spánar