Vöruskipti voru óhagstæð um 700 milljónir króna í apríl samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Þett eru sláandi tölur, að mati Greiningar Íslandsbanka, sem bendir á í Morgunkorni sínu í dag, að annar eins halli á vöruskiptum við útlönd hafi ekki sést frá því í júlí árið 2008. Engu skipti hvort leiðrétt sé fyrir sveiflum í gengi krónunnar eða ekki.

Bent er á í Morgunkorni Íslandsbanka að hallinn skýrist fyrst og fremst af rýrum útflutningi á sama tíma og verðmæti innflutnings dróst saman en þó minna en samdráttur í útflutningi.

Í Morgunkorninu segir:

„Margt leggst á eitt í rýrum útflutningi í aprílmánuði. Loðnuvertíðin var afar slök þennan veturinn og útflutningur uppsjávarafurða þar með lítill í magni mælt. Þá drógu álfyrirtækin úr framleiðslu seinni hluta vetrar vegna skömmtunar raforku, sem kom til af slæmum vatnsbúskap vatnsaflsvirkjana. Verð á bæði uppsjávarafurðum og áli hefur auk þess verið lágt á tímabilinu. Loks er hér líklega að hluta til um tilfærslu á milli mánaða að ræða, og gæti því vöruútflutningur orðið með meira móti í maí.“