Hagfræðideild Landsbankans spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,4% frá maí til júní. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan lækka og verða 3,2% í júní en hún hefur ekki mælst lægri síðan í apríl 2011 en þá var hún 2,8%. Hagstofn mun birta júnímælingu á vísitölu neysluverð fimmtudaginn 27.júní.

Helstu áhrifavaldar á verðlagið í júní

Samkvæmt verðkönnun hækkaði bensínverð um 1,7% og verð á nýjum bifreiðum um 1,2% milli mánaða. Hagfræðideild Landsbankans segir að rekja megi hækkun þessara liða til veikingar krónunnar frá því í byrjun maí. Í heild er gert ráð fyrir að liðurinn ferðir og flutningar hafi 0,16 prósentustiga áhrif til hækkunar VNV í júní. Býst hagfræðideildin við að veiking krónunnar komi að einhverju leyti fram í matvöruverði og að hækkun þess hafi 0,05 prósentustiga áhrif til hækkunar VNV. Gert er ráð fyrir að húsnæðisliðurinn muni hækka milli mánaða og verður framlag hans til hækkunar VNV 0,8%. Þá er einnig búist við áframhaldandi hækkunum á liðnum hótel og veitingahús en veitingar hafa hækkað um 2% frá áramótum og hótel um 17,8%.