Svo virðist sem sameiginlegt eftirlit með öllum bönkum Evrópusambandsins verði brátt raunin. Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir fulltrúa framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að þessa megi jafnvel vænta strax á næsta ári.

Þá er nýr, umdeildur varasjóður á teikniborðinu en sjóðinn á að fjármagna með skattlagningu á fjármálastofnanir. Þá fela tillögurnar einnig í sér sameiginlega innistæðutryggingu ESB sem vernda á sparifjáreigendur komi til bankahruns.

Tillögurnar eru umdeildar og hafa fulltrúar breskra yfirvalda meðal annars lýst yfir andstöðu sinni. Bretar hafa sagt að eðlilegra væri að kerfið næði aðeins til þeirra landa sem taka þátt í evrusamstarfinu en ekki allra landa innan ESB.

Samkvæmt heimildum BBC er gert ráð fyrir að áætlanirnar verði samþykktar á fundi framkvæmdastjórnarinnar 28 og 29 júní næstkomandi í Brussel.