Stefnt er að því að halda prófkjör vegna komandi alþingiskosninga hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík þann 24. nóvember nk.

Stjórn Varðar, fulltrúaráðsins í Reykjavík, ákvað þetta á fundi í gær. Búið er að boða fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík á fund í næstu viku þar sem þessi tillaga verður lögð fram. Það er síðan fundarins að staðfesta dagsetninguna.

Nú þegar hafa þau Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri, og Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, gefið kost á sér í 1. sæti í komandi prófkjöri. Þá hafa alþingismennirnir Birgir Ármannsson og Guðlaugur Þór Þórðarson gefið kost á sér í 2. sæti.

Loks hefur Brynjar Níelsson, hrl. gefið kost á sér í 3. sæti listans. Sem kunnugt er mun Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins láta af þingmennsku í vor. Þá er enn beðið eftir því að Pétur H. Blöndal, alþingismaður, upplýsi um áform sín.

Fyrir utan framangreinda aðila eru fjölmörg nöfn nefnd til sögunnar. Þannig herma heimildir Viðskiptablaðsins að Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi í Reykjavík, hugi að framboði.

Önnur nöfn sem verið hafa í umræðunni eru lögmennirnir Sigríður Á. Andersen (sem nú er varaþingmaður), Fanney Birna Jónsdóttir og Teitur Björn Einarsson. Þá mun Jakob F. Ásgeirsson, rithöfundur og bókaútgefandi, einnig vera að huga að framboði.

Leiðrétting: Hermt var í vikunni að Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, hyggist færa sig til Reykjavíkur. Svo mun ekki vera. Hún segir í samtali við vb.is ætla að vera áfram í 2. sæti í Suðurkjördæmi.