Evrópski flugvéla- og vopnaframleiðslurisinn EADS stendur frammi fyrir erfiðri baráttu að hreinsa orðspor sitt, eftir að franska fjármálaeftirlitið sagðist hafa fundið vísbendingar um hugsanleg innherjaviðskipti núverandi og fyrrverandi stjórnenda fyrirtækisins. Fjármálaeftirlitið sagði einnig að líkur væru á því að EADS hefði gefið út misvísandi tilkynningar vegna framleiðsuvandamála Airbus, dótturfélags EADS.

Í frétt The Daily Telegraph er haft eftir forstjóra EADS, Louis Gallois, að fyrirtækið muni verjast ásökunum í garð fyrirtækisins og stjórnenda að miklum krafti.

Hann varaði hins vegar við því að málið gæti haft „verulegar afleiðingar fyrir ímynd og orðspor félagsins“. Í frétt Telegraph segir að fjármálaeftirlitið hafi í gær byrjað formlega að tilkynna stjórnendum EADS um hugsanlegar refsiaðgerðir og ákærur á hendur þeim, en 18 mánuðir eru liðnir frá því að fjármálaeftirlitið hóf rannsókn á viðskiptum stjórnenda með hlutabréf á tímabilinu nóvember 2005 til apríl 2006. Það er talið að fjármálaeftirlitið hafi upphaflega rannsakað 21 fyrrverandi og núverandi stjórnendur, en samkvæmt frétt franska dagblaðsins Les Echos þá beinist rannsóknin nú að 17 manns.

Fram kemur í frétt Financial Times að formleg ákæra hafi verið lög fram gegn Lagardére og Daimler, helstu iðnaðarhluthafa EADS, auk Noel Forgeard, fyrrum forstjóra Airbus. Forgeard sagði í samtali við Financial Times að hann fagnaði því að formleg niðurstaða hefði fengist þar sem það myndi veita honum tækifæri á því skipuleggja vörn sína. „Þetta eru aðeins grunsemdir og grunsemdir eru ekki sönnunargögn“.