Ákvörðun sýslumannsins á Vesturlandi um að stöðva framgang nauðungarsölu á fasteigninni Bifröst var felld úr gildi með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands í gær. Gerðarbeiðandi í málinu var Háskólinn á Bifröst ses. en til varnar var Miðgarður ehf.

Húsnæðið sem undir er í málinu er sá hluti gamla samvinnuskólans sem hýsir hótelið á Bifröst. Vorið 2018 keypti félagið Himinblámi ehf. allt hlutafé í Hótel Bifröst ehf. af háskólanum. Kaupverð var 45 milljónir króna sem átti meðal annars að uppfylla með útgáfu 7,5 milljón króna skuldabréfs. Gjalddagar þess voru níu talsins, 5. júlí, 5. ágúst og 5. september árin 2018 til 2020 en greiðsla hvers gjalddaga átti að vera 833 þúsund krónur.

Greiðslur á fyrstu þremur gjalddögunum lentu milli skips og bryggju og var í ársbyrjun 2019 samið um að gjaldfallnar afborganir og áfallna vexti mætti færa á viðskiptareikning háskólans hjá hótelinu. Hið sama mætti gera með ógjaldfallna gjalddaga. Háskólinn setti þann fyrirvara að hann mætti falla frá samkomulaginu ef verðskrá hótelsins myndi hækka umfram verðlag.

Í ágúst 2019 óskaði forsvarsmaður Miðgarðs eftir því að afborganir þess árs, þá höfðu júlí og ágústgreiðslan þegar gjaldfallið, yrðu færðar á viðskiptareikning aðila. Því hafnaði háskólinn aftur á móti á þeim grunni að hækkun milli ára væri langt umfram verðlagsþróun. Samkvæmt samanburði háskólans, á tveimur útgefnum reikningum, hafði verðið hækkað um rúm 8% meðan vísitala neysluverðs hafði hækkað um 3,1% á tímabilinu.

Skólinn mátti gjaldfella bréfið

Í árslok 2019 óskaði háskólinn eftir nauðungarsölu á eigninni þar sem ekki hefði verið staðið í skilum á greiðslum samkvæmt veðskuldabréfinu. Miðgarður mótmælti því að beiðnin næði fram að ganga þar sem skuldin hefði verið greidd. Sýslumaður taldi óvíst að háskólinn hefði rétt til að nauðungarsalan næði fram að ganga og stöðvaði uppboðið. Var málið af þeim sökum lagt í úrskurð héraðsdóms.

Háskólinn byggði meðal annars á því að fyrrnefndu félagi, Himinbláma ehf., hefði verið óheimilt að framselja Hótel Bifröst ehf. til Miðgarðs ehf. enda skuldaraskipti ekki heimil nema að kröfuhafi samþykki. Háskólanum hefði verið heimilt að gjaldfella skuldina í heild ef ekki væri staðið í skilum á einhverjum gjalddaganna. Gjaldþrot Hótel Bifrastar ehf. í byrjun árs 2020 hafi síðan þýtt að ómögulegt væri að efna samkomulagið samkvæmt hljóðan þess.

Miðgarður byggði á móti á því að samkomulagið hefði verið efnt. Háskólinn hefði tekið út vörur hjá hótelinu allt fram til þess tíma er rekstur þess fór í þrot. Alls næmu úttektirnar rúmlega 21 milljón króna á tæplega þriggja ára tímabili. Þá var því mótmælt að veðskuldabréfið væri í vanskilum.

Í úrskurði héraðsdóms sagði að þegar beiðni Miðgarðs í ágúst 2019, um færslu á viðskiptareikning, kom fram hafi afborganirnar 5. júlí og 5. ágúst þegar verið gjaldfallnar. Því hefði Háskólanum verið stætt á því að hafna því að þær yrðu greiddar gegnum viðskiptareikning. Samkvæmt skýru orðalagi veðskuldabréfsins hefði verið heimilt að gjaldfella skuldina í heild og mætti þá þegar krefjast nauðungarsölu á veðandlaginu. Þegar af þeim sökum var ákvörðun sýslumanns felld úr gildi. Því til viðbótar ber Miðgarði að greiða sjálfseignarstofnuninni 800 þúsund krónur í málskostnað.