Íslandsbanki hefur ráðið Allan Strand Olesen til að stjórna rekstrareiningum bankans í Benelúx-löndunum, Þýskalandi, Danmörku, Finnlandi, Svíþjóð og Eystrasaltslöndunum, segir í tilkynningu. Strand Olesen var áður forstjóri bankans í Lúxemborg.

Íslandsbanki opnaði skrifstofu í Danmörku þann 28. október og í tilkynningunni segir að umsvifum bankans í þessum löndum verði stjórnað frá Kaupmannahöfn og Lúxemborg.

Jón Diðrik Jónsson er yfirmaður alþjóðafjárfestingabankasviðs Íslandsbanka. Strand Olesen verður áfram staðsettur í Lúxemborg, segir í tilkynningunni.