*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 23. september 2021 07:12

Systurfyrirtæki styðji við stafræna sókn

Eigendur og lykilstarfsmenn Vettvangs hafa stofnað systurfyrirtækið Well Advised til að styðja við stafræna vegferð fyrirtækja.

Ritstjórn
Elmar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Vettvangs.
Aðsend mynd

Eigendur og lykilstarfsmenn veflausnafyrirtækisins Vettvangs hafa stofnað systurfyrirtækið Well Advised. Nýja fyrirtækið býður alhliða lausnir í Azure skýjaþjónustu Microsoft og er ætlað að styðja fyrirtæki á stafrænni vegferð.

„Við höfum unnið með mörgum viðskiptavinum okkar við að nútímavæða kerfi og ferli, ekki síst hvað varðar rekstur í skýjaþjónustu Azure. Við aðstoðum þannig fyrirtæki að taka sín fyrstu skref og öðrum að halda áfram í því stafræna umbreytingaferli sem mörg fyrirtæki hafa þegar hafið. Það er gríðarlega hröð þróun í hinum stafræna heimi og Covid-19 hefur hraðað þeirri þróun enn frekar," segir Elmar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Vettvangs.

„Nálgunin hjá Well Advised er að mörgu leyti ólík því sem gengur og gerist á hinum íslenska markaði. Hjá okkur er enginn vélarsalur. Áherslan er öll á að koma lausnum viðskiptavinarins í hraðskalanlegt skýjaumhverfi Azure, sem er dreift um allan heiminn. Þar er framtíðin og hag viðskiptavinarins best borgið.

Stórir vélasalir eru víða fullir af hálfnýttum vélum. Fyrirtæki burðast með himinháan rekstrarkostnaður sökum vannýtts varaafls, afritunartöku og tvöföldunar á umhverfi til að tryggja uppitíma.  Þarna er hægt að hagræða; skrúfa upp aflið þegar álag er mikið eða niður þegar starfsemin er í dvala. 60% af öllum innviðafjárfestingum í heiminum 2020 voru í skýjalausnum,“ bætir hann við.

Azure auki hagræðingu

Elmar segir að fyrirtækið hafi náð mjög góðum árangri með viðskiptavinum sínum. Hann nefnir sem dæmi Domino's og lífsskoðanafélagið Siðmennt. „Domino's flutti til dæmis sínar þjónustur í skýið fyrir nokkrum árum. Þarfir þeirra eru mjög álagsbundnar eftir tilboðum og dögum vikunnar. Ein af þeim breytingum sem við höfum innleitt með þeim í skýinu eru sveigjanlegar stærðir á gagnagrunnum þar sem einungis er greitt miðað við afkastakröfur hverju sinni. Þessi breyting og fleiri hafa skilað sér í 40-50% sparnaði fyrir tiltekna þjónustuliði í Azure.

Þá fylgdum við Siðmennt í gegnum formlegt umsóknarferli hjá Microsoft Azure þar sem félagasamtök af ýmsum toga fá stuðning sem felur í sér ókeypis vefhýsingu og fjölmörg Office 365 leyfi. Í jafnflóknu og víðfeðmu landslagi og skýjalausnum er nefnilega mjög mikilvægt að velja sér reynda og færa sérfræðinga til þess að ná fram hámarksárangri með lágmarks tilkostnaði.“

Hann segir að fyrirtæki og stofnanir af öllum stærðum og gerðum, vítt og breitt um heiminn séu að nýta Azure lausn Microsoft sem færir þeim samkeppnisforskot í stafrænum heimi þar sem þær auka hagkvæmni, sveigjanleika og skalanleika, og bjóða að auki framúrskarandi möguleika á öryggi og vörn.