*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 17. september 2021 12:05

„Tær spilling“ hjá ASÍ og BSRB

Brynjar Níelsson sakar ASÍ og BSRB um spillingu með því að nýta sjóði launþega í kosningabaráttu í þágu vinstri flokkanna.

Ritstjórn
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Haraldur Guðjónsson

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir auglýsingaherferðir BSRB og ASÍ í aðdraganda Alþingiskosninganna séu „tærasta mynd spillingar í dag“. 

Sérstakt sé að spilling hafi verið minna til umræðu í kosningabaráttunni nú en oft áður. „Stærstu samtök launamanna, ASÍ og BSRB, hafa blygðunarlaust ausið fé úr sjóðum félagsmanna til að styðja við pólitíska samherja forystumannanna í kosningabaráttunni. Ég myndi ekki gera athugasemdir við það ef þessi samtök væru einkafyrirtæki úti í bæ eða frjáls félög að berjast fyrir ákveðnum málefnum,“ segir Brynjar í færslu á Facebook.

„En það heyrist ekki boffs í Gagnsæi, sem var sérstaklega stofnað til að berjast gegn spillingu,“ segir Brynjar. 

Ástæðan sé einföld. „Þetta er allt sama fólkið í sömu pólitísku baráttunni. Þá hefur ekkert heyrst í Pírötum, Viðreisn og Samfylkingunni sem þykjast á tyllidögum vera sérstakir baráttumenn gegn spillingu. Kannski hentar þessi spilling þeim ágætlega.“