Jón Ívar Einarsson, læknir sem sérhæfir sig í kviðsjáraðgerðum, hefur þróað nýtt tæki, sem á ensku kallast Lattis Endoscopic Tissue Extractor (LETE), til að forðast alvarlega fylgikvilla í tengslum við not á svokölluðum „hakkavélum“. Jón Ívar, sem hefur starfað við Brigham and Women´s Hospital og læknadeild Harvard síðastliðin átta ár, segir kviðsjáraðgerðir vera góðar fyrir sjúklinga vegna þess að þeir jafna sig fyrr heldur en ella. Við þannig aðgerðir þarf oft að taka líffæri út í gegnum þessi litlu göt og til þess þarf stundum að hakka líffærin með svokallaðri „hakkavél“, sívalningi sem breytir líffæri í langa strimla af vef. Töluvert af vefnum getur dreifst inni í líkamanum. Hakkavélar eru einnig með beitt blað sem getur valdið slæmum fylgikvillum, og dæmi eru um að sjúklingar látist vegna þessa.

Þörf á öruggari tækni
Síðan 2012 hefur Jón Ívar, ásamt öðrum, verið að leita að leið til þess að gera þessar aðgerðir öruggari. „Þetta er mjög einföld lausn, en oft eru einfaldar lausnir held ég góðar,“ segir Jón Ívar. „Tækið notar poka eins og læknar eru vanir að nota í svona aðgerðum með sterku neti, pokinn er svo dreginn út og svo er netið dregið inn í vél, en ekki er hægt að gera þetta með handafli því það þarf töluverðan kraft. Þegar netið er dregið inn kubbast vefurinn niður í litla teninga, það þarf bara að ýta á einn takka og þá gerist þetta sjálfkrafa á einni til tveimur mínútum.“

Þeir sóttu um einkaleyfi á tækinu fyrir ári og eru með einkaleyfi í Bandaríkjunum og svokallaða PCT einkaleyfisumsókn sem virkar nánast um allan heim.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .