Nóg er að gera hjá TM Software þessa dagana og hyggst félagið ráða 10 til 15 hugbúnaðarsérfræðinga á næstu mánuðum til að mæta vaxandi eftirspurn eftir vörum og þjónustu.

Haft er eftir Ágústi Einarssyni, framkvæmdastjóra TM Software, í tilkynningu að fyrirtækið sé í mikilli sókn með eigin hugbúnaðarlausnir og góð eftirspurn sé eftir sérfræðingum fyrirtækisins vegna umfangsmikilla verkefna fyrir innlenda og erlenda aðila. Gert er ráð fyrir áframhaldandi vexti og eru horfur jákvæðar.

Þá kemur fram í tilkynningunni að tekjur TM Software, sem leggur áherslur á þróun vef- og hugbúnaðarlausna, jukust um 28% í þriðja ársfjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra. Þá hafa erlendar tekjur fyrirtækisins af Tempo hugbúnaði og sérverkefnum vaxið umtalsvert og er hlutfall erlenda tekna nú 31% af heildartekjum félagsins.

Vörur TM Software eru seldar til yfir 2.000 fyrirtækja í 73 löndum og þýddar yfir á 12 tungumál, þar af var Tempo hugbúnaðurinn, sem er tímaskráningar- og áætlunargerðarviðbót fyrir Atlassian JIRA, nýlega þýddur yfir á japönsku og norsku vegna mikillar eftirspurnar á þessum mörkuðum.

Hjá TM Software vinna 80 starfsmenn.