Afar ólíklegt er að tollar á innflutt nautakjöt og aðrar landbúnaðarafurðir verði lækkaðir einhliða samkvæmt upplýsingum úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Gildir þá einu hvort innlend framleiðsla anni eftirspurn eða ekki.

Ástæðan er sú að tollar eru notaðir til að styrkja samningsstöðu Íslands við viðsemjendur sína þegar kemur að milliríkjaviðskiptum. Ekki sé skynsamlegt að láta spil af hendi einhliða, án þess að fá neitt í staðin.

„Tollar eru í sjálfu sér verðmæti. Það er alveg öruggt mál að menn munu ekki gefa eftir í innflutningstollum á kjöti nema eitthvað komi í staðinn,“ segir í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins til ráðuneytisins. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, telur tímabært að heildarendurskoðun fari fram á íslensku landbúnaðarkerfi.