Í Hálf fimm fréttum Kaupþings kemur fram að fjárfestingasjóðurinn West Coast Capital (WCC) hafi aukið hlut sinn í garðvöruverslanakeðjunni Dobbies Garden Centres upp í 29,16%. Skoski fjárfestirinn Sir Tom Hunter fer fyrir West Coast en hann er meðal stærstu hluthafa í Glitni [ GLB ] í gegnum Jötun Holding.


Kaupin eru athyglisverð fyrir þær sakir að Tesco lagði fram vinsamlegt yfirtökutilboð í Dobbies þann 17. september síðastliðinn í krafti 65,5% eignarhlutar. Tilboð Tesco hljóðar upp á 15 pund á hvern hlut en síðustu kaup WCC fóru fram á sama gengi. Sir Hunter ætlar greinilega ekki að ganga að boðinu þegjandi og hljóðalaust en orðrómur var lengi vel á kreiki um að hann hefði í hyggju að bjóða í Dobbies. Verður ekki annað séð en að Tesco verði að hækka tilboð sitt ef það ætlar sér full yfirráð yfir Dobbies þar sem hlutur WCC nægir til að koma í veg fyrir afskráningu keðjunnar úr Kauphöllinni í Lundúnum. Markaðsverðmæti Dobbies er um 19,2 milljarðar króna.


Garðvörurnar heilla
Garðvöruverslanakeðjur í Bretlandi hafa vakið eftirtekt fjárfesta fyrir ýmsar sakir. Því er spáð er að geirinn eigi eftir að vaxa hratt á næstu árum eftir því sem fjölgar í hópi eldri borgara og þá hafa fjárfestar horft til verðmæta í fasteignum og lóðum. Í fyrrasumar stóðu West Coast Capital, Baugur og fleiri fjárfestar að yfirtöku á Wyevale Garden Centres fyrir 310 milljónir punda og bættu annarri rós í hnappagatið þegar þeir eignuðust Blooms of Bressingham fyrr á þessu ári. Á dögunum settu eigendur Wyevale 53 milljónir punda í uppbyggingu á fimm nýjum verslunum.