Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum, sagði í spjallþættinum Hannity í gær að Jeff Bezos stofnandi Amazon og eigandi fjölmiðilsins Washington Post kepptist við að níða sig með umfjöllunum um allt sem hann gerði.

Auk þess segir hann að Amazon komist upp með ígildi morðs, þegar kemur að skattamálum - og að Bezos noti svo Washington Post til að stýra umræðunni frá því. Hann telur Bezos hafa of mikil völd sem hann svo notar gegn sér og öðrum, og hann segist ætla að breyta því verði hann kjörinn forseti.

„Það sem hann hefur gert, er að hann keypti [Washington Post] fyrir smáaura, og hann notfærir sér pólitískt afl þess gegn mér og öðru fólki - og ég skal segja þér það, að við getum ekki leyft honum [Bezos] að komast upp með það,” sagði Trump í spjallþættinum.

Bezos keypti Washington Post árið 2013 fyrir 250 milljónir Bandaríkjadala - 30,2 milljarða króna. Þá hafði fjölmiðillinn unnið 47 Pulitzer-verðlaun, en hann er þekktur fyrir að hafa ljóstrað upp um Watergate-hneykslið svokallaða, sem svo leiddi til afsagnar Richard Nixon, þáverandi forseta Bandaríkjanna.