Sænsku bankarnir Nordea og Handelsbanken fengu á sig verulegar sektir í dag og voru einnig harðlega gagnrýndir af sænska fjármálaeftirlitinu fyrir skort á verkferlum og verkþáttum til að koma í veg fyrir peningaþvætti í gegnum bankana. Nordea fékk á sig hámarkssekt að fjárhæð 50 milljónir sænskra króna (andvirði um 800 milljóna íslenskra króna) og Handelsbanken var sektaður um 35 milljónir sænskra króna.

Í skýrslu fjármálaeftirlitsins segir að hafi einhver reynt að þvo fé eða fjármagna hryðjuverkastarfsemi í gegnum Nordea hefði það verið hægt án þess að bankinn sjálfur hefði haft nokkra hugmynd um það. Handelsbanken var sagður ekki hafa látið fara fram áhættumat á öllum viðskiptavinum sínum og því hafi verið mikil hætta á því að hægt hefði verið að stunda peningaþvætti í gegnum hann.

„Þetta er búið að vera mjög slæmt,“ segir Per Håkansson, yfirlögfræðingur sænska fjármálaeftirlitsins, um Nordea í samtali við Financial Times. „Þeir höfðu ekki einu sinni hugmynd um að þeir hefðu áhættusama viðskiptavini.“ Nordea fékk árið 2013 sekt fyrir sömu sakir og er fjárhæðin því hærri í þetta sinn.

Eftirlitið segir jafnframt að alls séu um 100 milljarðar sænskra króna þvegnir í Svíþjóð á hverju ári og að bankar verði því að vera á sérstöku varðbergi.