Ef fólki verður heimilað að leysa út séreignarsparnað sinn er líklegt að lífeyrissjóðirnir verði að leysa út eignir erlendis að andvirði 75 til 100 milljarðar króna.

Samkvæmt upplýsingum frá Arnari Sigurmundssyni, formanni Landssamtaka lífeyrissjóða, eru um það bil 275 til 300 milljarðar króna í séreignarsparnaði og ákveðið hlutfall þess er bundið erlendis. Hann sagði að samtökin óttuðust framkvæmdina ef í hana verður ráðist.

„Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er byggt á lögum og ef það er pólitískur vilji til þess að breyta lögum þá gerist það af sjálfu sér,“ segir Arnar.

„Þannig var, að allt frá hruninu í haust voru ákveðnar þreifingar um að gera breytingar sem heimila útgreiðslur hjá fólki sem hafði lent í miklum erfiðleikum en það er ekki auðvelt að gera þetta. Niðurstaðan var sú að Alþingi breytti reglunum þannig að allir sem voru 60 ára og eldri gátu tekið þetta út í einu lagi. Út af fyrir sig var sátt um þá breytingu.“