Miklar líkur eru á hækkun stýrivaxta seinnipartinn í dag segir Greining Íslandsbanka. Ársfjórðungsrit Seðlabankans, Peningamál, verður birt eftir klukkan 16 og er líklegt að bankinn hækki stýrivexti sína við það tilefni. "Við teljum að bankinn muni hækka vexti um 50 punkta og fari með stýrivexti í 6,75%. Bankinn hefur þegar hækkað vexti sína þrívegis á árinu, eða úr 5,3% í 6,25%. Áfram má búast við vaxtahækkunum af hálfu Seðlabankans í haust og í vetur. Spáum við því að stýrivextir verði komnir upp í 8% fyrir mitt næsta ár," segir í Morgunkorni bankans.