Seðlabanki Evrópu hefur nú ríkari ástæðu til að halda stýrivöxtum sínum óbreyttum eftir að verðbólga á evrusvæðinu náði 14 ára hámarki sínu, samkvæmt nýjum hagtölum sem birtust í gær. Financial Times greinir frá þessu.

Sérfræðingar búast við að verðlagshækkanir verði jafnvel hraðari í mars, en matvælaverð og eldsneyti leiða hækkanirnar. Þó er búist við að meðalverðbólga á árinu verði 3%.

Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri Evrópu, lagði áherslu á það í þessum mánuði að festa þyrfti verðbólguvæntingar í sessi, sérstaklega á tímum órólegra fjármálamarkaða.