Hagnaður Vífilfells nam 114,4 milljónum króna á síðasta ári, en þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi fyrirtækisins. Þetta er töluverður viðsnúningur frá fyrra ári, en þá skilaði fyrirtækið tapi sem nam 92,8 milljónum króna.

Sala fyrirtækisins jókst á milli ára um tæplega 60 milljónir króna og nam nú 10.867 milljónum króna. Hins vegar námu vörugjöld 3.986 milljónum króna og framleiðslukostnaður var 4.625 milljónir króna, en hann dróst saman um 175 milljónir króna milli ára. Hreinar rekstrartekjur námu því 2.256 milljónum króna.

Rekstrarhagnaður Vífilfells nam 62,5 milljónum króna en hann var neikvæður um 85,8 milljónir króna ári fyrr.

Eignir Vífilfells námu 7.763 milljónum króna í lok ársins en skuldir voru 2.934 milljónir króna. Nam eigið fé fyrirtækisins því 4.144 milljónum króna í árslok.

Stjórn fyrirtækisins leggur til að ekki verði greiddur arður til hluthafa á árinu 2015. Fyrirtækið Cobega S.A., sem er heildsölu- og dreifingaraðili fyrir drykkjarvöru með starfsemi víða um heim, á 99,99% hlut í Vífilfelli.