*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Erlent 12. apríl 2021 19:14

Vilja skipta út stjórnarformanni Boeing

Ráðgjafar hluthafa mæla með að greidd verði atkvæði gegn tveimur stjórnarmönnum, þar á meðal stjórnarformanni Boeing.

Ritstjórn
Stjórn Boeing bíður krefjandi verkefni við að endurheimta traust til 737 Max vélanna.
epa

Þónokkrar breytingar hafa verið gerð á stjórnskipulagi og stjórnarsætum flugvélaframleiðandans Boeing frá seinna 737 Max flugslysinu fyrir um tveimur árum síðan. Nú styttist í aðalfund þar sem fjárfestar munu ákveða hvort þær breytingar dugi til. WSJ fjallar um málið.

Aðalfundur framleiðandans fer fram 20. apríl næstkomandi og meta fjárfestar nú hvort stjórnarmeðlimirnir tíu verði endurkjörnir eða hvort breytingar verði gerðar í samræmi við ráðleggingar óháðs ráðgjafarfyrirtækis hvers hlutverk er að gæta að hagsmunum hluthafa.

Sjá einnig: Stöðva flug hluta 737 Max véla

Ráðgjafarfyrirtækið mælir þannig með að hluthafar greiði atkvæði gegn tveimur þaulsetnum stjórnarmönnum, þeim Larry Kellner, sem gegnir stjórnarformennsku, og Edmund Giambastiani.

Frá seinna 737 Max slysinu hafa sjö stjórnarmeðlimir hætt, eða tilkynnt um að þeir hyggjast hætta, í stjórn félagsins. Á sama tíma hafa fjórir komið nýir inn í stjórn. Stjórn félagsins bíður krefjandi verkefni við að endurheimta traust til 737 Max vélanna.

Sjá einnig:Stærsta pöntun frá kyrrsetningu Max.

Boeing hefur tekist að yfirstíga þónokkrar áskoranir, en mikilvægur áfangi náðist á dögunum þegar félagið náði samningum við Southwest Airlines um 100 737 Max vélar. Það varð félaginu aftur á móti töluvert áfall þegar í ljós kom vandamál með rafkerfi hluta 737 Max vélanna fyrir helgi, sem leiddi til þess að taka þurfti fleiri tugi 737 Max véla úr umferð.

Stikkorð: Boeing 737 Max