Í maí nam kreditkortavelta alls 23,8 milljörðum króna, sem jafngildir 7% raunaukningu frá sama mánuði í fyrra. Innlend kreditkortavelta jókst um 5,5% að raungildi en raunaukning erlendrar veltu var öllu meiri, eða ríflega 13%, segir Greiningardeild Glitnis.

Debetkortavelta í innlendum verslunum var rúmlega 17,8 milljarðar króna í maí og dróst saman um tæplega 7% að raunvirði frá sama mánuði í fyrra.

Þetta segir Greiningardeildin góða vísbendingu um hvert einkaneysla stefnir. "Töluverðar sveiflur hafa verið milli mánaða í kortaveltu undanfarið, en sé miðað við þriggja mánaða hlaupandi meðaltal kemur í ljós að jafnt og þétt dró úr raunvexti kortaveltu á meginhluta síðasta árs og fyrstu mánuðum þessa árs, en hins vegar hefur orðið lítilsháttar raunaukning á veltunni nú á vordögum. Er það sterk vísbending um að einkaneyslan aukist nú að nýju," segir hún.