Það er mat Viðskiptaráðs og fjölda fræðimanna að þjóð geti ekki átt eign og vegna þess hefur yfirlýsing í þá veru enga efnislega merkingu.

Þetta kemur fram í umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá sem skilað var til sérnefndar um stjórnarskrárfrumvarpið.

Viðskiptaráð gerir talsverðar athugsemdir við þá ætlan löggjafans að afgreiða frumvarpið með þeim hraða sem raun ber vitni.

„Frumvarpið felur í sér breytingar á grundvallarlögum lýðveldisins og við slíkar breytingar ber að gæta vandaðra vinnubragða, sérstaklega hvað snertir samráð við atvinnulíf, fræðimenn og aðra hagsmunaaðila,“ segir í umsögn Viðskiptaráðs.

Í umsögninni kemur fram að eignarréttur að auðlindum verður, ef frumvarpið verður samþykkt, í höndum ríkisins og fer það með allar heimildir sem felast í eignarréttinum s.s. réttinn til umráða, hagnýtingar og ráðstöfunar.

„Það er alveg skýrt,“ segir í umsögn Viðskiptaráðs.

„Þetta er staðfest í frumvarpstextanum, greinargerð þess og í lögum um friðun Þingvalla sem eru fyrirmynd ákvæðisins. Telur Viðskiptaráð afar misráðið að fara þessa leið. Það er þannig ekkert sem kemur í veg fyrir að einkennum þessa nýja hugtaks, sem nefnd eru [...], verði náð fram með almennri lagasetningu og í reynd væri það mun hagfelldara.“

Þá segir Viðskiptaráð að yfirlýsing sem þessi [þ.e. að auðlindir séu í eigu ríkisins eða þjóðarinnar, innsk. blaðamanns] hefði engin áhrif hvað hugsanlega aðild að Evrópusambandinu varðar og ekki er til bóta að koma í veg fyrir að eignarréttur yfir auðlindum skapist með hefð eins og farið er yfir í umsögninni.

Þá telur Viðskiptaráð fulla ástæðu til að kanna hvers vegna samanburðarlönd okkar hafa ekki farið þessa leið, en í umsögn ráðsins kemur meðal annars fram að ekki er kveðið á um það í stjórnarskrám annarra Norðurlanda að auðlindir séu í eigu ríkisins eða þjóðarinnar. Að sama skapi er ekki að finna ákvæði um þjóðareign að auðlindum í stjórnarskrám annarra Evrópuríkja, nema Eistlandi og Slóveníu, að minnsta kosti að formi til.

„Að mati Viðskiptaráðs verður jafnframt ekki séð að yfirlýsing sem þessi bæti einhverju við núverandi lagaumhverfi þar sem ríkið er þegar eigandi helstu auðlinda landsins og hefur heimildir til að stýra nýtingu þeirra.“