Á árinu sem leið nam heildarvöruútflutningur 626 milljörðum íslenskra króna meðan heildarinnflutningur nam 657 milljörðum króna. Þetta þýðir að halli mælist á vöruskiptum þjóðarinnar, sem um nemur 30 milljörðum króna.

Þetta er í fyrsta sinn sem vöruskiptahalli mælist síðan árið 2008 - eða í fyrsta sinn í heil átta ár. Þá mældist hallinn 6,7 milljarðar króna, talsvert minni en hann er í ár. Þetta kemur fram í samantekt hagfræðideildar Landsbankans.

Vöruútflutningur þjóðarinnar jókst í raun og reynd um 36 milljarða króna milli ára - en innflutningurinn jókst þeim mun meira, um 70,3 milljarða króna. Aukinn útflutning má helst skýra með aukningu í sjávarafurðum - sérstaklega loðnu og þorski.

Þá jókst útflutningsverðmæti áls um 23,6 milljarða króna milli ára. Það skýrist helst af sterkara gengi Bandaríkjadalsins gagnvart íslensku krónunni á árinu, en það var að meðaltali 136 krónur, miðað við að árið áður var það 116 krónur.