Á meðal þess fjalla var um var um í tímariti Frjálsrar verslunar í apríl 1979 var útflutningur á fatnaði og þá sérstaklega ullarfatnaði frá Fataverksmiðjunni Heklu.

Hér er brot úr þeirri grein:

Fataverksmiðjan Hekla á Akureyri hefur selt samtals 3,1 milljón flíkur til Sovétríkjanna síðan viðskipti hennar við aðila þar hófust árið 1960. Magnið sem flutt var út þá voru 5000 peysur. Fluttar eru út heilar og hnepptar lopapeysur og á síðastliðnu ári var farið að flytja út trefla til Sovétríkjanna.

Með framleiðslu síðasta árs og þessa árs hafa verið seldir um 220 þúsund treflar til Sovétríkjanna. Nú í fyrsta skipti á þessu ári framleiðir Fataverksmiðjan Hekla lopapeysur fyrir börn á Sovétmarkað. Útflutningsverðmæti þessa árs samkvæmt núverandi gengi er um 800 milljónir króna. Langmestur hlutinn eru peysur, þ.e. lopapeysur í sauðalitunum, að sögn Sigurðar Arnórssonar, framkvæmdastjóra Fataverksmiðjunnar Heklu á Akureyri.

Áætlað er, að frá upphafi viðskiptanna til 1970 hafi verið unnar hjá Heklu fyrir þennan markað um ein milljón peysur og frá 1970 og með framleiðslu þessa árs 2.133.532 flíkur, sagði Sigurður. Framleiðslan fyrir Sovétmarkaðinn er áætluð 45% af heildarveltu Fataverksmiðjunnar Heklu á þessu ári, bæði með framleiðslunni fyrir innanlands- og utanlandsmarkaðinn, að sögn Sigurðar. Skrifað var undir samninga við Sovétmenn í janúar s.l. og hefur fyrirkomulag samningaviðræðnanna verið þannig, að samninganefndir frá sovésku kaupendunum og samninganefnd frá Sambandinu fyrir hönd fataverksmiðjunnar Heklu hafa hist, annað hvort í Moskvu, eða hér á landi.

Fataverksmiðjan Hekla var hluti af Iðnaðardeild Sambandsins og var starfrækt á á verksmiðjusvæðinu á Gleráreyrum á Akureyri. Félagið sameinaðist Álafossi árið 1987 eftir erfiðleikaleikaskeið en Álafoss varð gjaldþrota árið 1991, sama ár og Sovétríkin hrundu.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 4.495 kr. á mánuði