Hrafnarnir fylgdust furðu lostnir með Dóru Björt Guðjónsdóttur og félögum í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar setja nýgerða kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, sem þeir eru sannfærðir um að verða þekktir sem þjóðarsáttin hin síðari, í uppnám á dögunum.

Þannig ákvað ráðið að hækka tímakaup nemenda í vinnuskóla Reykjavíkur um 7,9%. Sá sem samgleðst unglingunum mest er væntanlega Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir baráttu sína fyrir bættum kjörum nemenda vinnuskólans.

Að vísu á borgarráð enn eftir að samþykkja aukafjárveitingu svo hægt sé að ýta launahækkuninni úr vör en ætla má að Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, og aðrir hagsmunaverðir sem berjast fyrir bættum kjörum ríkisstarfsmanna og þreytast ekki á að segja að nóg sé til, fylgist grannt með gangi mála.

Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.