Svandís Svavarsdóttir sendi frá tilkynningu í morgun þar sem fram kom að samkvæmt lögfræðiáliti úr ráðuneyti sínu þurfi hún ekkert að aðhafast í kjölfar álit umboðsmanns í hvalamálinu.

Þetta ætti að koma fáum á óvart því ráðherra sem brýtur lög vísvitandi, líkt og Svandís, er ólíklegur til að viðurkenna misbeitingu valdsins.

Nú fyrst reynir á það hvort þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins vilji að þeirra verði minnst sem sérstaka stuðningsmenn þess að misfara með opinbert vald og hvort þeir verji ráðherrann vantrausti.

Hér á eftir er pistill Óðins frá því í þar síðustu viku, nokkrum dögum eftir að álit umboðsmanns var birt.

Viðbót kl. 15.16

Svandís Svavarsdóttir greindi rétt í þessu frá því að hún sé komin í leyfi vegna veikinda . Óðinn vonar að Svandís muni sigra í baráttunni við krabbameinið sem allra fyrst.

Einbeittur brotavilji Svandísar og tafarlaus afsögn

Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu á föstudag að Svandís Svavarsdóttir hafi brotið lög þegar hún bannaði hvalveiðar. Bannið var tímabundið, til 31. ágúst, en þýddi í raun að hvalveiðivertíðinni lauk áður en hún hófst. Hvalur hf. var eina fyrirtækið á Íslandi sem hafði starfsleyfi til að veiða langreyðar og því beindist ákvörðunin aðeins að einu fyrirtæki.

Svandís gerðist brotleg á tvo vegu. Annars vegar með því að setja reglugerð án nægrar lagastoðar og hins vegar með því að gæta ekki meðalhófs við ákvörðun sína.

***

Litla Hraun logar

Afsökun Svandísar við lögbrotunum eru sú að hún hafi neyðst til að brjóta hvalveiðilögin í kjölfar álits fagráðs því lögin um hvalveiðar séu gömul - frá árinu 1949. Þau væru einfaldlega ekki í takt við tímann.

Óðni er sagt að nú séu allir þeir sem dvelja á Litla Hrauni að benda fangavörðunum á þeir séu í raun saklausir. Hegningarlögin séu jú síðan 1940 og fyrst hæstvirtur ráðherra haldi því fram að lög séu úrelt vegna aldurs þá hljóti glæponar líka að geta það.

***

Tvær niðurstöður

Hinn 8. maí 2023 skilaði Matvælastofnun af sér eftirlitsskýrslu um velferð hvala við veiðar á langreyðum á Íslandi 2022. Þar er meginniðurstaðan þessi:

Stofnunin telur að aflífun hafi tekið of langan tíma á hlutfalli af þeim dýrum sem voru veidd á veiðitímabilinu 2022 og olli þeim dýrum meiri sársauka en ásættanlegt er ef horft er til markmiða laganna skv. 1. gr. Hins vegar eftir yfirferð á gögnum sem aflað var við eftirlit með veiðum á hvölum 2022 og öðrum upplýsingum sem liggja fyrir um búnað, veiðiaðferðir og þjálfun starfsfólks er það mat stofnunarinnar að ákvæði 27. gr. laga um velferð dýra nr. 55/2013 um veiðar hafi ekki verið brotið.

Þótt Matvælastofnun hafi fundið að aflífunartíma telur stofnunin að lög um dýravelferð hafi ekki verið brotin.

***

Fagráð um velferð dýra er Matvælastofnun til ráðgjafar. Stofnunin óskaði eftir áliti frá fagráðinu. Þar er niðurstaða þvert á niðurstöðu Matvælastofnunar:

Að mati ráðsins voru miklir ágallar á veiðum á stórhvelum við Ísland sumarið 2022. Ráðið sá ekkert í eftirlitsskýrslu MAST og gögnum sem henni fylgdu sem bendir til þess að eitthvað sérstakt við aðstæður þessarar vertíðar hafi valdið þeim. Því má ætla að veiðar þess árs skeri sig ekki frá öðrum veiðitímabilum.

Af fyrirliggjandi gögnum að dæma og því sem fram kom í samtali við sérfræðinga telur ráðið að við veiðar á stórhvelum sé ekki hægt að uppfylla þau skilyrði sem nauðsynleg eru til að tryggja velferð dýra við aflífun. Niðurstaða ráðsins er að sú veiðiaðferð sem beitt er við veiðar á stórhvelum samræmist ekki ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra.

Í yfirlýsingu sinni í kjölfar álits umboðsmanns sagði Svandís um þetta atriði:

Ekki var annað hægt fyr­ir ábyrg­an ráðherra en að bregðast við á ög­ur­stundu. Þann 19. júní síðastliðinn lá fyr­ir álit fagráðs um vel­ferð dýra þar sem fram kom sú af­drátt­ar­lausa niðurstaða að veiðiaðferðin sem beitt var við veiðar á langreyðum væri ekki í sam­ræmi við lög um dýra­vel­ferð.

Því var mitt mat og ráðuneyt­is­ins á þeim tíma að ég hefði ekki ann­an kost, sem ráðherra sem ber ábyrgð á vel­ferð dýra, en að bregðast við strax og fresta upp­hafi veiðitíma­bils­ins, þar til skoðað yrði hvort hægt væri að gera úr­bæt­ur á veiðiaðferðum. Vel­ferð dýr­anna var í önd­vegi í minni ákv­arðana­töku, að vinna að því mark­miði að þessi dýr upp­lifðu ekki óbæri­leg­an dauðdaga við veiðar.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

***

Viðbrögð úr takti við efni

Viðbrögð Svandísar Svavarsdóttur við tveimur misvísandi niðurstöðum, matvælastofnunarinnar og fagráðsins, var að banna hvalveiðar sumarið 2023.

Þá koma til helst tvær grundvallarreglur í íslenskum rétti. Annars vegar atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar, sem er að finna í 75. gr., og meðalhófsregla stjórnsýsluréttarins sem er að finna í 12. gr. stjórnsýslulaganna. Hún hljóðar svo:

Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.

Allir sanngjarnir menn hljóta að sjá að verulegur vafi leikur á um hvort lög um velferð dýra hafi verið brotin fyrst Matvælastofnun kemst að andstæðri niðurstöðu. Sú ákvörðun sem mest er íþyngjandi fyrir Hval hf., starfsmenn fyrirtækisins og alla þá sem starfa fyrir það, er að banna veiðar.

***

Ráðuneytið varaði Svandísi við

Lögfræðingar Matvælaráðuneytisins þekktu auðvitað þessar reglur. Þeir bentu ráðherranum í minnisblaði á að nauðsynlegt væri að gefa Hval hf. kost á að tjá sig um efni reglugerðarinnar.

Þegar sjón­ar­mið leyf­is­hafa liggja fyr­ir verður lagt meðal­hófs­mat á fyr­ir­hugaðar breyt­ing­ar með hliðsjón af and­mæl­um aðila.

En jafnvel þótt lögfræðingarnir hefðu allir verið fjarri góðu gamni þegar reglugerðin var í vinnslu hefði það ekki skipt nokkru máli.

Svandís Svavarsdóttir er nefnilega enginn kjáni. Hún hefur verið ráðherra í 10 ár samanlagt. Í störfum hennar hefur margumrædd meðalhófsregla aftur og aftur komið fyrir. Hún skilur þekkir inntak reglunnar vel.

Hún hefði því átt að vita að hún væri að brjóta gegn meðalhófsreglunni með ákvörðun sinni.

***

Afsögn óumflýjanleg

Ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur um hvalveiðibann var pólitísk ákvörðun. Margar ákvarðanir ráðherra eru vitanlega pólitískar. En þeir eru bundnir af lögunum og í þetta sinn fór Svandís á svig við lögin til að ná pólitísku markmiði sínu. Brotaviljinn virðist því hafa verið einbeittur.

Ástæðan er auðvitað sú að hún vissi vel að hún fengi aldrei samþykki fyrir lagabreytingu sem var frumforsenda fyrir hvalveiðibanni. Hvorki hefði fengist samþykki í ríkisstjórn fyrir henni né hjá meirihluta Alþingis.

Þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins er því ekki stætt á því að verja Svandísi Svavarsdóttur vantrausti, komi fram tillaga um slíkt fram.

Tækju þeir þátt í að verjast vantrausti væru þeir um leið að segja að ráðherrar megi misnota vald sitt. Það væri vont veganesti í næstu kosningar.