Hrafnarnir sáu að Festi, móðurfélag N1, Krónunnar og Elko, tapaði 91 milljón króna á fyrsta ársfjórðungi. Þetta er mikil breyting frá því í fyrra þegar félagið skilaði tæplega hálfs milljarða hagnaði fyrstu þrjá mánuði ársins. Þrátt fyrir að veltan hafi aukist minnkar framlegð umtalsvert milli ára og laun sem hlutfall af framlegð af vörusölu ríkur upp úr 52% í 59%.

Vafalaust hljóta Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra rafrænna skilríkja og íslenska dansflokksins, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að fagna þessari rekstrarniðurstöðu sérstaklega. Rétt eins og allir þeir stjórnmálamenn sem á undanförnum misserum hafa alið á tortryggni í garð smásöluverslana og biðlað til þeirra að velta ekki verðlagshækkunum á aðföngum út í verðlagið og gæta hófs í arðgreiðslum.

Annars benda hrafnarnir á fjárfestakynningu á afkomu Festa. Hún er öllum þeim sem halda fram að álagning dagvöru hér á landi sé út úr öllu korti holl lesning. Þar má finna upplýsingar um að framlegð vörusölu dregst saman 2,2% milli ára. EBITDA lækkar um fimmtung á milli ára og laun sem hlutfall af framlegð af vörusölu eykst um 6,6%.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.