Í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudag fjallaði Óðinn um málefni fatlaðra og þá helst málefni Múlalundar. Til stendur að gera breytingar á rekstri vinnustofunnar á þessu ári og voru rökin sögð í frétt Ríkisútvarpsins vera „breytt stefna stjórnvalda í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. “

Þetta reyndist ekki vera meira en hálfsannleikur því um það leyti sem Viðskiptablaðið fór í prentun birtist frétt á vef Ríkisútvarpsins þar sem forstjóri Vinnumálastofnunar sagði að rekstur Múlalundar væri alltof dýr og hafa kostað ríkið allt að 140 milljónum króna.

Óðinn fagnar því að einhver innan ríkisbáknsins hafi áhyggjur af kostnaði og telji nauðsynlegt að velta við þessum steinum sem öðrum. Er því rétt að hrósa forstjóra Vinnumálastofnunar.

En er ekki rétt að leggja fram betri upplýsingar um rekstur Múlalundar og sjá hvort einhverjir athafnasamir einstaklingar sjái ekki tækifæri í rekstrinum svo vinnustofan lifi?

Vissulega eru 140 milljónir króna gríðarlegir fjármunir. En á sama tíma leggur Lilja Dögg Alfreðsdóttir til að hækka listamannalaun um 700 milljónir króna, í 1.677 milljónir króna. Eru fáir jafn öflugir í veröldinni og Lilja í að eyða peningum sem ekki eru til.

Þetta eru 1.677 milljónir íslenskra króna fyrir fullfrískt fólk. Einhverjir listamannanna eru reyndar með leti á lokastigi og þjást af alvarlegri vinstrivillu. Jakob Bjarnar fór ágætlega yfir eitt slíkt dæmi ekki alls fyrir löngu.

Mikið óskaplega þarf allur málatilbúnaðurinn hjá ríkisstjórn og ráðherrum að vera óaðfinnanlegur ef leggja á niður rekstur Múlalundar í núverandi mynd.

Hér á eftir er pistill Óðins frá miðvikudag í fullri lengd.

Múlalundur og Þorgerður Katrín

Eitt ágætasta fyrirtæki á Íslandi er vinnustofa SÍBS, Múlalundur. Fyrirtækið hefur starfað í 65 ár og er frábreytt öðrum fyrirtækjum á þann hátt að þeir sem starfa hjá því hafa flestir skerta starfsgetu.

Starfsemi Múlalundar hófst árið 1959 og hefur félagið frá upphafi verið í eigu og rekið af Sambandi íslenskra berkla sjúklinga. SÍBS var stofnað í þeim tilgangi að aðstoða útskrifaða berklasjúklinga að ná fótfestu í lífinu eftir dvöl á heilsuhælum um mislangt skeið. Félagið taldi nauðsynlegt að koma á fót sérstakri vinnustofu fyrir fólk, sem hafði lítið vinnuþrek og gat ekki unnið heilan vinnudag fyrr en það hafði fengið hæfilega þjálfun.

Í dag starfa um 50 manns hjá fyrirtækinu. Orsakir örorku starfsmanna eru margvíslegar. Sumir eiga við geðræn vandamál að stríða, aðrir eru með greindarskerðingu og svo starfar einnig á Múlalundi fólk með hjarta- og æðasjúkdóma, öndunarfærasjúkdóma, gigtarsjúkdóma, sem og fólk sem hefur skerta starfsgetu eftir slys.

***

Breytingar á starfseminni

Það kom Óðni á óvart að sjá í fréttum fyrir páska að til standi að gera breytingar á starfseminni í ár. Ástæðan er sögð vera breytt stefna stjórnvalda í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Í frétt Ríkisútvarpsins frá 15. mars er meðal annars rætt við Sigurð Viktor Úlfarsson, framkvæmdastjóra Múlalundar og Svein Guðmundsson, formann stjórnar SÍBS. Í fréttinni segir um málið:

Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er réttur þeirra til jafns við aðra viðurkenndur. Bann er lagt við mismunun og tryggja á rétt fólks með fötlun til sömu tækifæra og launa og aðrir hafa og að atvinnutækifæri og þróun starfsframa á vinnumarkaði séu efld og ýmislegt fleira í þeim anda. Stefna stjórnvalda, í samræmi við samninginn, sem fullgiltur var árið 2016, er því að fólk með fötlun vinni ekki á aðgreindum vinnustöðum heldur á hinum almenna markaði.

Vinnumálastofnun hefur því fengið það verkefni að útvega starfsmönnum Múlalundar vinnu á almennum markaði. Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar segir að verkefnið sé á frumstigi, en hún sé bjartsýn á að vel muni ganga að finna vinnu fyrir þennan hóp.

Framkvæmdastjóri Múlalundar segir að vel verði haldið utan um starfsfólk þeirra af þeim þar til fólkið hefur fengið vinnu við hæfi. Sveinn Guðmundsson formaður stjórnar SÍBS segir að breytingar verði á rekstri Múlalundar.Þar á bæ horfi menn björtum augum fram á veginn og verið sé að skipuleggja starfsemina út frá nýju umhverfi. Hann segir að Múlalundur verði áfram til staðar fyrir fólk með skerta starfsgetu.

Í frétt sem birtist í síðustu viku vef Ríkisútvarpsins er farið nánar í breytt hlutverk Múlalundar. Í fréttinni segir:

Engu að síður á fólkið sem starfar þar að kveðja og flytja sig yfir á almennan vinnumarkað. Starfsfólkið, aðstandendur þeirra og verkstjórar á Múlalundi lýsa lélegri upplýsingagjöf og óvissu.

***

Þarf nánari skýringa við

Það er augljóst af fréttum Ríkisútvarpsins að stjórnvöld og eftir atvikum forsvarsmenn Múlalundar verða að útskýra betur hvers vegna þessar breytingar eru nú gerðar og hvernig þær komi því ágæta fólki sem starfar á vinnustaðnum betur. Óðinn sér ekki lógíkina.

Árið 1959 rökstuddi Guðmundur Löve, þá skrifstofustjóri SÍBS og síðar framkvæmdastjóri Öryrkjabandalagsins, hlutverk Múlalundar, hinnar nýju vinnustofu SÍBS:

Á meðal þeirra sem í dag teljast öryrkjar, eru fjölmargir sem gætu afkastað miklu verki, ef þeir fengju starf við sitt hæfi. Sumir þessara manna hafa reynt mánuðum og árum saman að komast í létta vinnu, án árangurs. Þeir hafa því oft misst kjarkinn og sætt sig við að verða að lifa á örorkubótum aðgerðarlausir á heimilum sínum. Þessum mönnum á vinnustofan að geta hjálpað út í lífið á nýjan leik, fyrst með léttri vinnu og síðar með því að koma þeim út í athafnalífið í störf, sem þeim henta.

Hvað hefur breyst á þessum 65 árum?

***

Fáir sem láta málið sig varða

Of fáir stjórnmálamenn láta málefni fatlaðs fólk sig varða. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur aftur á móti gert það. Hún hefur hvað eftir annað bent á hvað betur megi fara í málaflokknum og talar af persónulegri reynslu.

Þorgerður Katrín benti réttilega á það fyrir tveimur árum í viðtali á Íslandi í dag á Stöð 2 á atvinnulífið og fyrirtæki verði að vera duglegri að gefa fötluðum börnum, sem lokið hafa skólagöngu, tækifæri í lífinu. Tækifæri fatlaðra barna eftir ákveðin aldur séu afar takmörkuð.

Fyrirtæki, sem flest eru lítil, eiga erfitt með að skapa umgjörðina fyrir fatlað fólk þótt þau væru öll af vilja gerð. Óðinn hélt því að rótgrónar stofnanir eins og Múlalundur geti skipt sköpum.

***

Hvað svo?

Þorgerður Katrín lýsti í viðtalinu hvernig skólaganga dóttur hennar hefði verið:

Svo þegar kemur að unglingsárunum þá finnum við að skólinn er ekki eins gefandi fyrir hana og þá fer hún í Klettaskóla og þar blómstrar hún og kynnist þar vinum sínum í dag. Svo fer hún á starfsbrautina í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti sem er líka frábær skóli og einstaklega vel haldið utan um alla krakkana þar. Kerfið heldur vel utan um börnin okkar og Katrín Erla hefur verið lánsöm þar en það er alltaf hugsun hjá okkur foreldrunum, hvað svo?

Þorgerður Katrín sagði í viðtalinu að áhyggjur foreldra fatlaðra barna aukist eftir því sem nær dregur skólalokum. Hún og Kristján Arason maður hennar séu þar engin undantekning og velti þau fyrir sér hvað bíði dóttur þeirra.

Eins og staðan er í dag bíður hennar líklega virkniúrræði sem þýðir að reyna halda henni í virkni. Maður hefur horft á það að fyrstu tvö þrjú árin eftir skóla að krakkar sem hafa verið nokkuð virk og virk í samfélaginu og allskonar tómstundum lokast bara inni með tölvunni eða bara króga sig af frá samfélaginu ef þau fá ekki strax tækifæri. Katrín er með mjög sterkt bakland en það eru ekki öll fötluð börn með það og það er ójafnræði þar. Það veldur mér stórum áhyggjum hvað varðar stóru myndina en svo veldur það mér áhyggjum hvað bíður hennar og að hún missi ekki af stóru tækifærunum.

Þessa dagana er mikið skeggrætt um hvort ný ríkisstjórn verði mynduð í landinu, hugsanlega með aðkomu Viðreisnar.

Óðinn ætlar sér ekki að óska sér neins í þeim efnum, en ef af yrði vildi hann gjarnan sjá Þorgerði Katrínu ráðherra málaflokks fatlaðs fólks. Þar gæti hún gert mikið gagn.