Óðinn fjallaði í síðustu viku um ótrúlega kauphallartilkynningu frá Marel um miðja nótt. Þess má geta að nær öll skráð íslensk hlutabréf tóku mikið stökk í kjölfar tilkynningarinnar og hafa hækkað töluvert síðan.

Árni Oddur Þórðarson rær nú öllum árum að því að bjarga hlut sínum í Eyri Invest. Hann telur eignarhlut sinn í Eyri um 2-3 milljarða virði.

Einnig fjallaði Óðinn um pilsfaldskapítalisma innan læknastéttarinnar og tók dæmi af afkomu tannlæknastofa.

Hér á eftir er hluti pistils Óðins en hann má lesa í fullri lengd hér.

Óskuldbindandi viljayfirlýsing um ekki neitt

Eitthvert mesta grín íslensk hlutabréfamarkaðar var sent út af Marel aðfaranótt síðasta föstudags.

Þar var á ferð „óskuldbindandi viljayfirlýsing varðandi mögulegt tilboð í öll hlutabréf í félaginu.“ Óðinn veit ekki um neitt sem settir hafa verið eins margir fyrirvarar við á íslenskri tungu, og eru þá yfirlýsingar framsóknarmanna í aðdraganda allra kosninga frá stofnun flokksins þann 16. desember 1916 meðtaldar.

***

Árni Sigurjónsson er yfirlögfræðingur Marels og formaður Samtaka iðnaðarins. Eitt sinn starfaði Árni sem lögmaður á Logos lögmannsþjónustu.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hvers vegna um miðja nótt?

Óðinn er, af mörgum ástæðum, ekki vanur að vitna í sögusagnir af íslenskum hlutabréfamarkaði. Helsta ástæðan er sú að hann er sammála kínverska máltækinu Trúðu engu sem þú heyrir og helmingnum af sem þú sérð. Það hefur reynst ágætlega að fara eftir þessu.

Annað, og það sem er meira um vert í þessu samhengi, er að það sem birtist í blöðum getur haft áhrif á verð. Því þurfa fjölmiðlar að vanda sig.

En þegar svona þvæla, eins og tilkynning Marels, er borin á borð þeirra sem starfa á íslenskum fjármálamarkaði er rétt að skoða málið gaumgæfilega. Að auki telur Óðinn að sögusögnin sé líklega í meginatriðum rétt þó atvikalýsing kunni að vera ónákvæm.

***

Fundur með lögmönnum

Sá maður sem hefur mesta hagsmuni af því hlutabréfaverð Marels rjúki upp, helst beina leið til tunglsins – eins og Kristján okkar í Hvalnum myndi orða það, er Árni Oddur Þórðarson. Þetta vita allir, að minnsta kosti allir í Landsbankanum.

Árni Oddur er sagður hafa verið á fundi með lögmönnum kröfuhafa sinna, að sögn á Logos lögmannsstofu. Mögulega var þetta fjarfundur en fundur engu að síður. Þar var verið var að ræða verðmæti hlutar hans í Eyri Invest og auðvitað Marel. Sagan segir að innan um hóp lögmanna hafi Árni Oddur misst það út úr sér að það væri nú þarna einn stór aðili, sem hefði áhuga á því að kaupa Marel með manni og mús – en þó ekki endilega Árna.

Lögmennirnir, sem hafa nú lent í mörgu – og er þá Óðinn fremur að tala um hrunið og allt sem því fylgdi heldur en nýlegri atburði á Logos, sáu auðvitað um leið að þeir væru þarna allir sem einn komnir með stöðu innherja í Marel.

Voru þá góð ráð dýr – enda lögmennirnir margir og tímakaupið hátt – og ekkert annað að gera í stöðunni en að ræða við yfirlögfræðing Marel, sem eitt sinn starfaði á Logos, og senda út tilkynningu sem helst enginn sæi. Var þá valin tími eftir miðnótt, eða klukkan 04:00.

***

Þurfti að ljá skeinipappírnum trúverðugleika

Allir sáu að „óskuldbindandi viljayfirlýsing varðandi mögulegt tilboð í öll hlutabréf í félaginu“ hafði jafn mikinn trúverðugleika og núverandi forystumenn ríkisstjórnarinnar í fjármálunum. Var því brugðið á það ráð fá óafturkallanlega yfirlýsingu frá Eyri Invest hf., eiganda 24,7% hlutafjár í Marel, um samþykki Eyris Invest hf. verði tilboð lagt fram í tengslum við viljayfirlýsinguna.

Í Viðskiptablaðinu í dag er hins vegar greint frá því að sú yfirlýsing var bara alls ekki óafturkallanleg.

Þrátt fyrir að allir hafi séð, að minnsta kosti þeir sem voru með opin augun, á föstudaginn að yfirlýsing hins bandaríska JBT væri innihaldslaus með öllu þá hækkaði gengi Marel tæp 20%. Ekki nóg með það þá styrktist krónan um 1,5%.

Nú er staðan sú að JBT er með punghald á hlutabréfaverði Marel. Óðinn ætlar auðvitað ekkert að spá fyrir um það hvort af viðskiptinum verði í framtíðinni en mikið óskaplega er orðið dimmt á íslenskum hlutabréfamarkaði þegar sérfræðingarnir kaupa bréf út á slíka ljóstíru.

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn í síðustu viku. Áskrifendur geta lesið pistilinn í fullri lengd hér.