Vitundarherferð Blaðamannafélags Íslands um meint mikilvægi blaðamennsku tekur á sig æ furðulegri myndir.

Þannig má sjá að Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður félagsins og starfandi framkvæmdastjóri hefur birt á heimasíðu BÍ leiðbeiningar fyrir blaðamenn um hvernig megi blekkja algóriþmann á samfélagsmiðlum til að tryggja sem mesta útbreiðslu án þess að þurfa að borga fyrir birtingu eins og aðrir þeir sem ráðast í auglýsingaherferðir á slíkum vettvangi.

Þá hvetur Sigríður Dögg félagsmenn sína til að deila færslum með áróðri Blaðamannafélagsins eins og enginn sé morgundagurinn. Hrafnarnir telja að þetta sé ígildi herkvaðningar í bottaher (e. bot army) formannsins og velta fyrir sér hvort það sé blaðamennsku hér á landi til framdráttar. Í þessu samhengi er rétt að minna á bloggherdeildir sem sumir almannatenglar stærðu sig af að ráða yfir í eftirmálum fjármálakreppunnar 2008.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 3. apríl 2024.