Súkkulaðiframleiðandinn OMNOM tapaði 10,9 milljónum króna á síðasta ári miðað við 6,6 milljón króna hagnað árið 2015.

Fyrirtækið lagðist í talsverðar fjárfestingar á síðasta ári sem átti þátt í að vörusala jókst um ríflega þriðjung úr, 124,6 milljónum króna í 170,1 milljón króna. OMNOM fjárfesti í innréttingum, aðstöðu, vélum og tækjum fyrir 136 milljónir króna á árinu. Kaupin voru fjármögnuð með 32 milljón króna hlutafjáraukningu og lántökum. Skuldir fyrirtækisins jukust úr 73,3 milljónum króna í 185,4 milljónir króna milli ára.

Alls nema eignir OMNOM 214,2 milljónum króna og eigið fé 28,8 milljónum króna.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir nam 15,7 miljónum króna 2016 miðað við 16,2 milljónir árið 2015. Þá hækkuðu laun og launatengd gjöld úr 44 milljónum króna í 80,6 milljónir króna milli ára. Meðalfjöldi ársverka voru 10 árið 2016 en 7,6 á fyrra ári.