Á árinu 2016 fjölgaði gjaldþrotabeiðnum fyrirtækja á Íslandi um 75% frá árinu áður, en alls voru 1.027 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á árinu 2016. Árið 2015 voru þau hins vegar aðeins 588, að því er kemur fram í tölum Hagstofunnar .

Þar er þó settur sá fyrirvari að verkfall lögfræðinga árið 2015 hafi valdið því að hluti gjaldþrotanna sem varð þá hafi ekki verið skráð fyrr en árið 2016.

Mesta fjölgunin í fjármála- og vátryggingastarfsemi

„Árið 2016 fjölgaði gjaldþrotum hlutfallslega mest í fjármála- og vátryggingastarfsemi, þar sem þeim fjölgaði úr 33 í 94 frá fyrra ári (185%)," segir í frétt Hagstofunnar.

„Einnig má nefna að milli áranna 2015 og 2016 fjölgaði gjaldþrotum í upplýsingum og fjarskiptum úr 28 í 63 (125%) og í sérfræðilegri, vísindalegri og tæknilegri starfsemi úr 46 í 98 (113%).

Gjaldþrotum fjölgaði í öllum helstu atvinnugreinabálkum frá fyrra ári, en þeim fjölgaði hvað hægast í flutningum og geymslu, úr 18 í 22 (22%).

Fækkun á suður og austurhluta landsins

Ef skipting gjaldþrota árið 2016 er skoðuð eftir landshlutum sést að gjaldþrotum fjölgaði allnokkuð milli áranna 2015 og 2016 á höfuðborgarsvæðinu (úr 426 í 877; 106%), Vesturlandi (úr 16 í 34; 113%) og Vestfjörðum (úr 5 í 13; 160%), á meðan þeim fækkaði á milli ára á Suðurnesjum (úr 49 í 27; 45%), Austurlandi (úr 11 í 8; 27%) og Suðurlandi (úr 63 í 47; 25%).“